Riverdale- leikarar taka við verðlaunum á Teen Choice
Riverdale- leikarar taka við verðlaunum á Teen Choice — AFP
Þriðja þáttaröð af bandarísku unglingadramaþáttaröðinni Riverdale var hleypt af stokkunum á Netflix í síðustu viku.

Þriðja þáttaröð af bandarísku unglingadramaþáttaröðinni Riverdale var hleypt af stokkunum á Netflix í síðustu viku. Það sem er ólíkt með Riverdale og flestum öðrum þáttaseríum á Netflix er að nýr þáttur um Archie og félaga kemur út vikulega, í stað þess að öll þáttaröðin sé gerð opinber samtímis.

Undirrituð er ekki aðdáandi bandarískra unglingaþátta að staðaldri og eru þættirnir eins konar „guilty pleasure“. Þeir verða svo vandræðalegir oft á tíðum að stundum er ekki annað hægt en að hlæja að dramatíkinni eða senda vinkonunum snapp með textanum „Hvað var ég að horfa á!?“

Margt hefur gengið á í fyrstu tveimur þáttaröðunum, en mér, forföllnum aðdáanda, þótti nánast nóg komið þegar plott nýjustu þáttaraðarinnar var látið í ljós í síðasta þætti. Fæst er nú rökrétt í heimi bandarísku unglinganna í Riverdale, en þegar yfirnáttúrulegar verur eru farnar að gera persónum lífið leitt með því að senda þær í flogaköst er nóg komið, er það ekki annars? Og allir foreldrarnir eru flæktir í þetta á einhvern óskiljanlegan hátt?

Æ, ég gef þessu líklega séns þegar næsti þáttur kemur á fimmtudaginn.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Höf.: Þorgerður Anna Gunnarsdóttir