Eyjólfur Þór Sæmundsson fæddist 28. september 1950. Hann lést 5. október 2018.

Útför hans fór fram 17. október 2018.

Landsprófsbekkurinn frá Flensborg 1966 settist í tvo framhaldsskóla, Menntaskólann í Hamrahlíð og Menntaskólann í Reykjavík, og reyndar fleiri skóla, en fjórir úr bekknum fóru í MH en flestir í MR (12-15 manns). Og við Hafnfirðingarnir sem lukum stærðfræðideild með Eyva í 6-Y vorum 11 og höfðum þá flestir átt samleið með honum í ein 13 ár eða svo.

Nú er Eyjólfur allur og er hann annar af bekkjarfélögunum í 6-Y bekknum sem kveður þessa jarðvist. Það er dálítið erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem eftir sitja í huga okkar við slíkar fréttir – síungir í anda a.m.k. – en söknuður um hin glöðu ár rifjast upp og óneitanlega minningar frá skólaárunum. Flestir fórum við svo hver í sína áttina að stúdentsprófi loknu eins og gengur og samverustundum fækkaði.

Eyvi var dagfarsprúður maður. Reyndar rekur okkur ekki minni til að hann hafi látið nokkurn hlut raska ró sinni. Það var helst að Eyvi léti í sér heyra þegar hann taldi að spilafélagi hans og bekkjarfélagi Jón Gíslason (Nonni Gilla) hefði gert einhverja vitleysu við spilaborðið. Þá hélt umræðan áfram í Hafnarfjarðarstrætó í nokkra daga að okkur fannst sumum, og höfðum gaman af. Eyvi var góður briddsspilari og við byrjendurnir höfðum aldrei heyrt Goren nefndan þegar Eyvi leiddi okkur í allan sannleikann um snilli hans. Okkur var öllum ljóst að hann var góður námsmaður. Við vissum líka að sjónin háði honum. Hvað um það, oftar en ekki gátum við skólafélagar hans leitað til hans þegar okkur þraut skilning á stærðfræði eða leyndarmálum náttúruvísinda. Við skólafélagar Eyva minnumst hans með hlýhug og sendum konu hans Gerði, börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum samúðarkveðjur. Góður drengur er fallinn frá.

Fyrir hönd bekkjarfélaga í 6-Y MR 1970,

Guðmundur O. Friðleifsson.