Ester Bíbí Ásgeirsdóttir
Ester Bíbí Ásgeirsdóttir — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hélt, alveg þangað til í fyrra eða eitthvað, að mörgæsir væru 180 cm á hæð eða meira.

Ég hélt, alveg þangað til í fyrra eða eitthvað, að mörgæsir væru 180 cm á hæð eða meira. Ég hafði bara séð þær í sjónvarpinu og var svo sannfærð að þegar ég sá mörgæs loks í dýragarði hugsaði ég; „Hmm, já, neinei, þetta hljóta að vera bara einhverjar dvergmörgæsir,“ segir Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, tónlistarkona og starfsmaður Kvikmyndasafns Íslands.

„Ég afsaka þessa vitleysu auðvitað þannig að maður hefur bara aldrei séð þessi dýr nema í sjónvarpi og þá aldrei miðað við neitt, bara einhvers staðar standandi á einhverjum klökum. Ég hélt líka að geirfuglinn væri svona bara eins og rjúpa þótt ég hefði séð þessa mannhæðarháu styttu á Reykjanesi; hélt að það væri bara svona stækkuð útgáfa. Komst að því bara í fyrra að þetta er raunstærð. Trúði því alls ekki og þurfti að gúgla og allt til að sannfærast alveg.

Ég stóð líka lengi í þeirri trú, jafnvel fram á fullorðinsár, að ef maður borðaði steina úr ávöxtum gæti sprottið tré inni í manni, og ég hélt mjög lengi, þangað til ég var komin með eigin börn í skóla, að jólalagið um Þyrnirós væri „og þyrnigerðið hósíá“. Hélt að hósíá væri nafnið á höllinni hennar eða eitthvað þrátt fyrir að ég og allir kynnu hreyfingar sem sýna hvernig þyrnigerðir hóf sig hátt. Annars hef ég verið mjög dugleg að misskilja söngtexta: Duran Duran-lagið Girls on Film var ég enn að syngja fullorðin; „Girls don't swim.“

Eftirlætismisskilningur Esterar Bíbíar er um leið saga af gífurlegum vonbrigðum sonar hennar.

„Ég fór með hann til hátíðabrigða í kaþólska kirkju, það voru páskar og mér fannst glatað að gera ekkert öðruvísi, annars er ég ekki kirkjurækin. Sonur minn var allur á iði í kirkjunni og fannst þetta hvorki hátíðlegt né skemmtilegt þrátt fyrir að hafa verið spenntur fyrir kirkjuferðinni.

Ég byrja að sussa á hann, presturinn er byrjaður að tala og við megum ekki trufla. Að endingu lítur hann á mig alveg furðu lostinn eins og ég væri að plata hann og sagði: „Nei, sjáðu, hann er ekkert að tala, þetta er bara svindl! Hann hreyfir ekki einu sinni varirnar!“ Þá sé ég að hann bendir á krossinn sem líkan af Jesú er neglt á og átta mig á að hann hefur orðið fyrir djúpum vonbrigðum með þessa ævintýralausu kirkjuferð þar sem styttur og guðdómurinn sjálfur segja ekki neitt.“