Síðdegis í dag verður tekið á móti ungri afrekskonu í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal en hún er væntanleg til landsins í dag alla leið frá Argentínu með ólympíugull um hálsinn.
Síðdegis í dag verður tekið á móti ungri afrekskonu í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal en hún er væntanleg til landsins í dag alla leið frá Argentínu með ólympíugull um hálsinn.

Það hefur verið magnað að fylgjast með Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur skjótast fram á sjónarsviðið á undanförnum mánuðum.

Hún varð Evrópumeistari unglinga í sumar, og það í aukagreininni sinni, 100 metra hlaupi, en mátti láta sér nægja bronsið í aðalgreininni, 200 metra hlaupinu.

Hún sló Íslandsmet fullorðinna í 200 metra hlaupi í sumar, varð Íslandsmeistari fullorðinna og er langt komin með að hirða öll metin í þessum tveimur greinum í yngri aldursflokkunum. Já, og hún er líka Norðurlandameistari 19 ára og yngri.

Svo skákaði hún bestu stúlkum heims í Argentínu í vikunni og er á heimleið með gullið eftir öruggan sigur í 200 metra hlaupinu.

Eitt af skemmtilegri íþróttamyndböndum ársins er af Guðbjörgu og viðbrögðum hennar þegar hún vann Evrópumeistaratitilinn í sumar.

Ekki skemmir fyrir frá sjónarhóli okkar í fjölmiðlastétt að hún er góður viðmælandi og hefur svarað vel fyrir sig, til dæmis í góðum viðtölum við Sindra Sverrisson hér í Mogganum og á mbl.is í vikunni.

Guðbjörg er aðeins 16 ára gömul og á því framtíðina fyrir sér. Það er nægur tími til að byggja upp væntingarnar en ég efa ekki að haldið verður vel utan um hana hjá ÍR þar sem hún er í góðum höndum.