Halldór Högurður
Halldór Högurður
Rétt áður en Borgarkringlan rann saman við Kringluna var ég þar staddur í verslun einni sem ég hafði tekið að mér smáverkefni fyrir.

Rétt áður en Borgarkringlan rann saman við Kringluna var ég þar staddur í verslun einni sem ég hafði tekið að mér smáverkefni fyrir. Við áttum fund um morguninn sem teygðist fram yfir hádegi og því var gert hlé til að borða,“ segir Halldór Högurður ráðgjafi.

„Ég fór ásamt konu sem var á fundinum niður í verslun á neðri hæð til að ná í eitthvað ætilegt. Ég greip mér samloku og var búinn að borga löngu áður en konan hafði gert upp hug sinn og beið því handan kassa. Ég sá hana á spjalli við kunnuglegan mann yfir salatbarnum og skömmu síðar kom hún út og við fórum upp. Þegar fundurinn hófst aftur sagði hún samstarfsfólki sínu að hún hefði rekist á Ævar R. Kvaran við salatbarinn og tekið hann tali og hann væri svo skemmtilegur. Samstarfsfólk hennar sagði henni að Ævar R. Kvaran væri löngu látinn og sagði hana örugglega vera að víxla nöfnum en hún náði á endanum að sannfæra samstarfsfólkið um að hún vissi sko alveg hver Ævar R. Kvaran væri því hún væri mikill aðdáandi og lýsti þessum fróða og skemmtilega manni með skegg. Ég heyrði nokkrum sinnum minnst á þennan draugagang í Borgarkringlunni eftir þetta og hef aldrei tímt að segja frá því sem ég sá: konuna góðu á spjalli við Ævar Kjartansson yfir salatbarnum.

Svo má nefna að alla mína æsku og þangað til nýlega hélt ég að „ekki er allt gull sem glóir“ þýddi að það leyndist gull víða því sumt gull glóði ekki, það finnst mér mun jákvæðara og hefur reynst mér ágætlega að halda í þennan misskilning.“