„En það sem hafði mest áhrif á mig er hugmyndin um „samfélag“, ég held að þetta sé almennt þróunin, samkeppni er búin, núna erum við að hjálpast að, deila og finna hvað við stækkum miklu meira við það,“ segir Gyða.
„En það sem hafði mest áhrif á mig er hugmyndin um „samfélag“, ég held að þetta sé almennt þróunin, samkeppni er búin, núna erum við að hjálpast að, deila og finna hvað við stækkum miklu meira við það,“ segir Gyða.
Gyða Valtýsdóttir fjallar um lífið, dauðann og hamskipti á fyrstu sólóplötu sinni, Evolution. Hún ferðast mikið í tengslum við tónlistina og varði sumrinu á tónleikaferðalagi á seglskútu með Damien Rice. Hildur Loftsdóttir hildur@mbl.is

Tónlistarkonan Gyða sendi fyrr í þessum mánuði frá sér sína fyrstu sólóplötu með eigin tónlist og ber hún titilinn Evolution . Áður hefur Gyða gefið út plötuna Epicycle þar sem ýmis tónverk allt frá 100 f.Kr. til dagsins í dag eru útsett og túlkuð á hennar magnaða hátt. Sú plata var valin hljómplata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2016.

Gyða er þekkt sem hæfileikaríkt tónskáld og sellóleikari og var upprunalega í hljómsveitinni múm. Hún yfirgaf sveitina til að einbeita sér að klassísku sellónámi og lauk tvöföldu mastersprófi frá tónlistarháskólanum í Basel bæði í klassískum sellóleik og spuna.

Hamskipti

„Ég hef verið að fást við svo ólíka hluti og lengi vel fannst mér eins og að fyrsta sólóplatan mín þyrfti að vera einhverskonar sneiðmynd af sjálfri mér. En þegar ég byrjaði að vinna í Evolution ákvað ég að leyfa henni að vera það sem hún vildi verða og smám saman fór hún svo að taka á sig ákveðna mynd og ákveðið þema sem ég hafði ekki séð fyrir.“

- Hvaða þema er það?

„Ætli það sé ekki einfaldlega lífið og dauðinn. Nokkur lög samdi ég til fólks í kringum mig sem var ýmist í ferlinu að falla frá eða verða til. Það breytir svo skynjun manns á lífið að upplifa þessa mögnuðu viðburði.

Flest lögin eru samin til einhvers eða fjalla um einhvern annan, nema kannski fyrsta lagið, sem markar það tímabil sem ég tengi við symbólískan dauða. Það var einhvers konar uppgjöf sem mér finnst marka nýtt tímabil í mínu lífi. Kannski mætti kalla það hamskipti.“

- Hvað stendur titillinn Evolution fyrir?

„Hann stendur í raun fyrir svo óendalega margt. Fyrir mér tengist nafnið þeim stöðuga breytileika sem mér finnst mjög mikilvægur. Maður ímyndar sér oft að þróun, eða „evolution“, byrji niðri og fari í beinni línu upp til hægri, eins og graf í góðum hagvexti. En ég sé hana frekar eins og margar hringrásir þar sem hver „árstíð“ innan hans er jafn mikilvæg og aðrar. Ég sé „þróun“ meira eins kaótíska spírala sem snúast á ólíkum hraða í tímalausu hafi tilverunnar.

Þegar við vorum á lokadögum í hljóðblöndun fannst mér vanta lokalag á plötuna og ákvað að bæta við einu gömlu lagi. Ég tók ekki eftir því fyrr en síðar að lagið heitir „Imago“ sem er síðasta þróunarstig skordýra, lirfa, púpa og að lokum imago – sem er vængjaða tímabilið.

Mér líður svolítið eins og ég sé á því tímabili núna. Það er gott en ég kann vel að meta öll hin stigin líka. Lirfan er að safna að sér forða og púpan er að skapa alveg á fullu. Ég held að ég hafi samið lagið þegar ég var inni í púpu. Það er mjög skapandi móment, þótt það fari lítið fyrir manni.

Nafnið Evolution er einnig ákveðin áminning til sjálfrar mín, að allt sé breytilegt og að stöðnun sé hinn eini dauði. Ég finn sterkt fyrir hringrásum í lífi mínu og hvernig hringrásin hefur áhrif á orku mína. Orka getur ekki horfið, hún umbreytist bara.“

Yndislegt ferli

Við gerð plötunnar fékk Gyða til liðs við sig marga frábæra listmenn.

„Ég vann plötuna með Alex Somers í heimastúdíóinu hans í Los Angeles. Nokkur lög hafði ég þó tekið upp áður í New York með Alberti Finnbogasyni. Þetta var yndislegt ferli, ótrúlega skemmtilegt og platan var tilbúin á mun styttri tíma en við gerðum ráð fyrir í upphafi.

Ég spila og útset nánast allt sjálf en fékk Úlf Hansson tónskáld til að skrifa strengjaútsetningar í tveimur lögum: „Nothing More“ og „Moonchild“. Hann er með svo sérstakan stíl og sterkan lit í sínum útsetningum. „Moonchild“ er reyndar fyrsta lagið sem kom út af plötunni og því fylgdi myndband sem ég gerði í samvinnu við Rebekku Rafnsdóttur, konu Úlfs.“

- Gefur þetta lag góða mynd af plötunni?

„Ja... mér finnst lögin mjög ólík og erfitt að velja eitt lag sem gefur betri mynd af plötunni en annað. En þar sem videóið var tilbúið þá passaði að gefa það út fyrst. Og satt að segja er þetta kannski mesta popplagið á plötunni,“ segir Gyða og hlær.

„„Moonchild“ er um það að vera andi og ákveða að koma í efnisheim og upplifa það að vera manneskja. Það finnst mér djarft, ég held að það sé miklu meira „áfall“ að fæðast inn í þennan heim heldur en að fara héðan.“

Æfingabúðir í flæði

Gyða ferðast mikið í tengslum við tónlist sína og í sumar fór hún á tónleikaferðalag með írska tónlistarmanninum Damien Rice, þar sem þau sigldu á milli tónleikastaða.

„Það var alveg yndislegt. Þetta var rosalega falleg seglskúta frá 1930 og við sigldum á henni á milli tónleikastaða á Ítalíu og Spáni. Við spiluðum á mjög fallegum stöðum, í hringleikahúsum á Ítalíu og gömlum óperuhúsum á Spáni.

Ég hef hitað upp fyrir hann nokkrum sinnum áður, en þessi ferð var alveg einstök upplifun. Ferðin endaði svo í Berlín þar sem við vorum bæði hluti af tónlistarhátíðinni PEOPLE. Þetta er einstök hátíð og alveg æðisleg. Ný nálgun á það hvernig við sköpum, flytjum og hlustum á tónlist.

Um 150 listamenn tóku þátt og bjuggu saman í viku við að skapa og æfa. Afraksturinn er síðan fluttur á tveggja daga tónlistarhátíð í lok vikunnar. Það sem er sérstakt við hátíðina er að áheyrendur fá ekki að vita hvað þeir eru að fara að sjá. Hlustunin og „nærveran“ breytist svo við það og upplifunin er allt önnur en á hefðbundnum hátíðum.

Þetta voru einhvers konar æfingabúðir í flæði bæði fyrir tónlistarmennina og hlustendurna. Fólk er mjög tilbúið að upplifa eitthvað nýtt, láta að stjórn til þess að sjá hvert flæðið fer með mann.“

- Fékkstu nýjar hugmyndir þarna?

„Ég er að vinna í næstu plötu sem er eins konar Epicycle 2, þar sem ég mun vinna með núlifandi tónskáldum sem eru annaðhvort að semja fyrir mig eða með mér.

Eitt af þeim tónskáldum er Kjartan Sveinsson og hann tók einmitt þátt í PEOPLE. Svo við unnum saman í Berlín að verki sem við fluttum svo á hátíðinni ásamt fleiri hljóðfæraleikurum. Það kviknaði eitthvað þar. En það sem hafði mest áhrif á mig er hugmyndin um „samfélag“, ég held að þetta sé almennt þróunin, samkeppni er búin, núna erum við að hjálpast að, deila og finna hvað við stækkum miklu meira við það.“

- Hvað er svo framundan?

„Ég er á leiðinni til Istanbu´´l þar sem ég tek þátt í tónleikum með frjálsum spuna, svo fer ég til Bandaríkjanna og spila nokkra tónleika þar. Evolution kemur út 12. október og í sömu viku verður frumsýning á kvikmynd sem ég samdi tónlistina fyrir, Undir halastjörnu , eftir Ara Alexander Ergis Magnússon. „Sándtrakkið“ kemur út sama dag, svo þetta er í raun tvöfaldur útgáfudagur. Svo fer ég líklega aftur inn í púpuna og vinn að næstu plötu,“ segir tónskáldið og sellóleikarinn Gyða sem hefur nóg fyrir stafni í listinni sinni.

Útgáfutónleikar vegna plötunnar verða haldnir í Iðnó í samstarfi við Mengi fimmtudaginn 25. október.