Guðný Ólöf Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 28. desember 1946. Hún andaðist í Uppsölum í Svíþjóð 17. ágúst 2018.

Foreldrar hennar voru Ósk Jóhanna Kristjánsson, f. 8. apríl 1919, d. 2. apríl 2000, og Kristján Ólafsson, f. 4. ágúst 1923, d. 8. janúar 2018.

Bræður Guðnýjar eru: Ólafur Tryggvi, f. 21.4. 1944, d. 25.3. 2017, Gísli Sigurbjörn, f. 22.12. 1947, Þorvaldur Kristinn, f. 27.2. 1949, Flosi Albert Helgi, f. 2.5. 1951, Sævar Jósef, f. 18.8. 1953, Pétur Kristinn, f. 8.12. 1955, og Ólafur Grétar, f. 28.6. 1958.

Guðný giftist 28.5. 1968 Pétri Axel Péturssyni, f. 18.12. 1945. Þau skildu. Sonur þeirra er Pétur Jökull, f. 27.5. 1967. Kona hans er Tina Teigen Pétursson, f. 25.2. 1969. Guðný var í sambúð með Lars-Åke Petterson, f. 5.2. 1944, d. 1.1. 2009. Þau slitu samvistir. Sonur þeirra er Kristian, f. 29.4. 1970. Hann var kvæntur Jennie Ann Larsson, f. 10.2. 1969. Þau skildu. Börn þeirra eru Jim, f. 14.7. 2005, Dina, f. 10.5. 2008, og Lilly, f. 22.1. 2011.

Guðný ólst upp í Reykjavík og gekk menntaveginn þar. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1966 og síðar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Um tíma starfaði hún við barnakennslu og sem flugfreyja hjá Loftleiðum, áður en hún fluttist til Svíþjóðar 1969 og hóf nám í sálfræði í Uppsölum. Hún lauk embættisprófi í sálfræði á áttunda áratugnum og starfaði sem sálfræðingur í Svíþjóð til æviloka.

Jarðarför Guðnýjar fer fram í kyrrþey.

Guðný systir mín var tæpum tólf árum eldri en ég og kom það í hennar hlut að annast um litla bróður til þess að létta verkum af móður okkar, enda í mörg horn að líta í tíu manna fjölskyldu. Mér var sagt síðar að hún hefði beitt harðneskjulegum uppeldisaðferðum til að siða bræður sína, en ekki rekur mig sjálfan minni til þess. Ég man ekki annað en ég hafi notið ástúðar og umhyggju frá henni þau sextíu ár sem við áttum hvort annað að.

Það var stolt fjölskylda í Mosgerði 17 sem fylgdist með systur okkar ljúka stúdentsprófi frá MR árið 1966. Framtíðin var óráðin, en á meðan hún gerði upp hug sinn starfaði hún sem flugfreyja hjá Loftleiðum og tók sig einkar vel út í búningnum sem enn er varðveittur í fjölskyldunni. Hún lauk einnig kennaraprófi og starfaði við kennslu barna um nokkurt skeið, en svo lá leiðin til Svíþjóðar 1969 þar sem hún hóf nám í sálfræði. Uppsalir urðu hennar heimabær, þar bjó hún og starfaði í nærfellt hálfa öld og þar andaðist hún í ágúst síðastliðnum.

Guðný öðlaðist réttindi sem sálfræðingur í Svíþjóð á áttunda áratugnum og starfaði við fag sitt fram á síðasta dag. Sérsvið hennar var vinnustaðasálfræði og hjálpaði hún mörgum að fóta sig í tilverunni á ný og verða virkir í atvinnulífi eftir áföll í lífinu.

Á heimili hennar mátti finna margvíslegan vitnisburð um þakklæti skjólstæðinganna fyrir veitta hjálp.

Guðný flutti sig töluvert milli staða í Uppsölum, en átti sín bestu ár í Övre Slottsgatan 12 og að lokum í Malma Backe þar sem hún gat sinnt litlum garði og ræktunarstörfum sem honum fylgdu. Guðný gekkst upp í ömmuhlutverkinu og sá ekki sólina fyrir barnabörnunum, Jim, Dinu og Lilly. Hún varð þeirrar gleði aðnjótandi að geta boðið þeim heim til Íslands síðastliðið sumar og sýnt þeim landið sem hún elskaði svo mjög.

Um fjörutíu ára bil átti ég þess kost að heimsækja systur mína í Uppsölum. Þar naut ég kyrrðar, góðs atlætis, umhyggju og góðs matar, en Guðný var afbragðskokkur. Oft lá ég sofandi í sófanum með Fantomen-blað ofan á mér. Þar las ég hin gullvægu orð: När Fantomen rör på sig står blixten stilla. (Gammalt jungelordspråk.)

Maður í hvíld og enginn að rexa í honum. Guðný vissi að það mátti sýna litla bróður örlitla þolinmæði, hann kæmi til með tímanum og liðsinnti við heimilisstörfin.

Guðný heimsótti Ísland á hverju ári og hafði yndi af því að ferðast um landið, ýmist akandi eða fótgangandi á ferð með góðum vinum. Slíkar heimsóknir nýtti hún einnig til að fara í leikhús eða á sýningar af einhverju tagi. Hún átti ágætt safn íslenskra bóka og fylgdist vel með því sem var að gerast í bókmenntalífinu á Íslandi.

Systir mín var dul manneskja og leitandi. Hún las mikið og af bókasafni hennar má merkja að hún var opin fyrir því að tileinka sér uppbyggilegar hugmyndir og viðhorf, sama hvaðan þau komu. Þar má einnig sjá að hún fylgdist vel með í sínu fagi og kappkostaði að kynna sér ávallt nýjustu stefnur og strauma í sálfræðinni.

Ég er stoltur af fallegu, duglegu og kláru systur minni og geymi minningu hennar í hjarta mér.

Ólafur Grétar Kristjánsson.

Elsku frænka. Enn og aftur finnst mér ég ekki tilbúin að kveðja ættingja sem snögglega er tekinn frá mér. Nærvera þín var alltaf svo hlý og þægilegt andrúmsloft á heimilinu. Öll þau skipti sem ég heimsótti þig leið mér eins og ég væri á mínu öðru heimili. Mætti frá Íslandi með minn eigin lykil og fékk alltaf alla efri hæðina út af fyrir mig. Við lögðum mikið upp úr hverjum kvöldverði þar sem það var tíminn sem við áttum alltaf saman. Svo eyddum við því sem eftir var af kvöldi í rólegheitum að spjalla og horfa á sjónvarpið. Ég mun alltaf taka til fyrirmyndar hvernig þú lést mér líða hjá þér, ástríkt heimili þar sem mér leið alltaf vel. Minningar sem eru mér mjög minnisstæðar og standa mér nærri eru þegar ég var yngri og þú eyddir sumarfríinu þínu í að fylgja mér á dansnámskeið í Stokkhólmi á hverjum degi, beiðst allan daginn og svo fórum við saman til baka um eftirmiðdaginn.

Ég er þakklát fyrir að hafa getað eytt svona miklum tíma með þér þótt við byggjum aldrei í sama landi og fyrir allar þær minningar sem við eigum saman.

Hildur Ólafsdóttir.

Guðný hefur verið hluti af lífi mínu næstum eins lengi og ég man. Við kynntumst þegar ég byrjaði í Breiðagerðisskóla átta ára, lítil og feimin og þekkti engan. Mér var vísað til sætis við hliðina á Guðnýju og smám saman tókst með okkur góð vinátta, sem hefur haldið æ síðan. Við fylgdumst að í Réttarholtsskóla, landsprófi og loks menntaskóla. Við fráfall Guðnýjar streyma minningarnar fram. Skautaferðir á Tjörninni, sundferðir, unglingsárin og fyrstu böllin í Gúttó og Sjálfstæðishúsinu. Hvernig við hlupum út af böllunum rétt fyrir tólf til að ná síðasta strætó í Smáíbúðahverfið. Eftir að við byrjuðum í MR var Borgin staðurinn og ég man enn hvað við vorum spenntar þegar við komumst í fyrsta sinn inn á Borgina, þá sextán ára. Eftir það sóttum við Borgina reglulega, enda var það aðalsamkomustaður MR-inga. Þótt skemmtana- og félagslífið tæki mikinn tíma stunduðum við skólann vel. Heimanámið sat að vísu oft á hakanum yfir veturinn en við unnum það upp með snörpum próflestri. Þá lásum við Guðný og Álfheiður vinkona okkar oft saman. Þetta voru skemmtileg og áhyggjulaus ár. Síðan tóku við fullorðinsárin. Við giftumst allar ungar og eignuðumst börn um tvítugt. Álfheiður hélt utan til náms í Uppsölum ásamt fyrri manni sínum og ungum syni og Guðný fór síðan til hennar með eldri son sinn Pétur. Þar kynntist Guðný Lars Åke, þau hófu sambúð og eignuðust soninn Kristjan. Guðný hóf nám í sálfræði við Uppsalaháskóla og bjó síðan og starfaði sem sálfræðingur í Uppsölum allt til dauðadags. Fyrstu árin höfðum við ekki mörg tækifæri til að hittast, enda var þá mun dýrara að ferðast milli landa og ungir námsmenn með börn gátu ekki leyft sér það. Það fóru hins vegar mörg bréf á milli okkar. Seinna fjölgaði ferðum, Guðný kom oftar heim og ég heimsótti hana í Uppsölum. Hún tók mér alltaf fagnandi og þótt stundum væri langt milli funda var eins og við hefðum hist í gær. Það var alltaf gott að tala við Guðnýju. Hún kunni að hlusta og mér fannst ég geta sagt henni allt, alveg eins og í gamla daga. Þótt Guðný byggi erlendis mestan hluta ævinnar saknaði hún alltaf Íslands, þar sem hún átti stóra fjölskyldu og góða vini. Hún hafði hins vegar skapað sér góðan starfsvettvang í Svíþjóð, þar voru synir hennar lengst af og síðan barnabörnin. Á seinni árum kom hún oftar til Íslands.

Síðast var hún hér í sumar og þá áttum við margar góðar stundir saman. Við fórum í sund eins og í gamla daga, hún kom til mín í nýju íbúðina og í sumarbústaðinn ásamt Kristjani og barnabörnunum þremur. Nokkrum dögum áður en Guðný fór aftur til Svíþjóðar fórum við saman út að borða og eins og oft áður keyrði ég hana á Unnarstíginn og við kvöddumst þar. Það hvarflaði ekki að mér að þetta yrði síðasta kveðjan.

Við Guðný höfum fylgst að nánast allt lífið og ég hafði vonast til að eftir starfslok gætum við átt meiri tíma saman bæði í Uppsölum og hér heima. Það átti ekki fyrir okkur að liggja, en það er mér dýrmætt að við skyldum eiga svo góðan tíma saman í sumar.

Vertu sæl, kæra vinkona.

Guðríður.

Í sumar rættist gamall draumur Guðnýjar um að börn og barnabörn kynntust og tengdust Íslandi.

Kristian og barnabörnin þrjú komu til landsins og hún gat farið með þau á fjölskylduslóðir, heimsótt vini og sýnt þeim staði sem henni þótti vænt um. Það voru góðir dagar í sól á Hjalteyri þar sem börnin undu sér vel með fjölskyldu okkar Villa. Það er erfitt að trúa því að mánuði síðar yrði hún öll.

Við kynntumst 16 ára í MR og vorum bekkjarsystur í fjögur ár fram til stúdentsprófs 1966 og urðum góðar vinkonur. Þetta voru árin þegar fyrstu skrefin til fullorðinsára voru tekin og vinátta verður djúp og helst allt lífið.

Eftir stúdentspróf skildu leiðir um stund þegar ég flutti til Uppsala í Svíþjóð til sálfræðináms. Á þeim tíma var ekki algengt að fara á milli landa og á sumrin unnu því íslenskir námsmenn ýmis störf. Ég gat útvegað Guðnýju vinnu sumarið 1969 og hún kom til okkar með Pétur Jökul tveggja ára.

Þá var hún fráskilin eftir stutt hjónaband. Í Uppsölum leist henni vel á sig og þar kynntist hún vini okkar Lars-Áke Petterson lögfræðingi. Hún flutti svo til Svíþjóðar og þau eignuðust soninn Kristian 1970.

Í Svíþjóð vorum við oft saman að annast drengina okkar þar til ég flutti heim til Íslands 1975.

Þá varð hún eftir og hélt ótrauð áfram í námi og starfi. Við höfum í öll ár haldið sambandi og þær eru ófáar bækurnar og bréfin sem hafa farið á milli okkar.

Guðný lauk embættisprófi í sálfræði frá Uppsalaháskóla. Hún hafði mikinn áhuga og metnað fyrir faginu og menntaði sig alla tíð. Hún átti gott fagbókasafn og ég naut góðs af því líka.

Hún sérhæfði sig í klínískri sálfræði. Hugur hennar og þjálfun stóð til að vinna með vanda einstaklinga og hún stofnaði fljótlega sálfræðistofu sem hún rak í félagi við góða kollega.

Hún var fagleg í starfi og lét sér mjög annt um skjólstæðinga sína.

Þó svo að Guðný væri í nær fimmtíu ár búsett í Svíþjóð var hún alltaf einlægur Íslendingur og ræktaði tengslin við landið, fjölskyldu og vini.

Hún átti stóra fjölskyldu, og var nátengd föður sínum, en hann lést í hárri elli á þessu ári. Bræður hennar voru sjö og þar af sex hér á landi.

Hún var stóra systirin sem bar mikla umhyggju fyrir bræðrum sínum og þeirra fjölskyldum, og hún gerði sitt besta til að reynast þeim vel. Hún ræktaði tengslin með því að koma oft til Íslands og hún vildi gjarnan fá vini og ættingja til sín.

Síðustu áratugina fórum við Guðríður vinkona oft til hennar. Þá var hún ævinlega búin að skipuleggja menningarferðir og hún bauð okkur upp á sælkeramáltíðir.

Sjálf var ég stóra systir þó að ég ætti einungis þrjá bræður. Við sögðum að hún og ég yrðum að vera systur hvor annarrar því ekki væri öðrum til að dreifa.

Trygglyndi og vinátta Guðnýjar vinkonu minnar var einstök og við áttum hvor aðra alltaf að. Það er mér mjög erfitt að missa hana og söknuðurinn verður sár um ókomin ár.

Við Vilhjálmur sendum fjölskyldu hennar og sonunum Pétri og Kristian, tengdadótturinni Tinu og barnabörnunum Jim, Dinu og Lily innilegar samúðarkveðjur.

Álfheiður Steinþórsdóttir.