Sigrún Helga Gísladóttir fæddist í Reykjavík 4. júní 1925. Hún andaðist á Vífilsstaðaspítala 28. september 2018.

Foreldrar hennar voru Sigurður Gísli Sigurðsson sjómaður, f. á Eyrarbakka 13. ágúst 1900, hann fórst með síðutogaranum Sviða 5. desember 1941, og Lilja Guðmundsdóttir, f. á Hvítárvöllum í Andakíl 5. september 1900, d. 28. nóvember 1926. Fósturforeldrar hennar voru Gísli Gíslason frá Hjalla, f. 15. október 1878, d. 23. apríl 1965, og Jórunn Jónsdóttir frá Hlíðarenda, f. 19. október 1885, d. 8. desember 1987. Uppeldissystir Sigrúnar Helgu var Gunnvör Gísladóttir, f. 13. júní 1910, d. 5. maí 2004. Sigrún Helga átti tvær alsystur, Jónínu S. Gísladóttur, f. 8. desember 1921, d. 18. mars 2008, og Guðrúnu Alfífu Gísladóttur, f. 12. ágúst 1923, d. 14. september 2017. Hálfsystur Sigrúnar Helgu, samfeðra, eru Auður Gísladóttir, f. 16. nóvember 1930, d. í Bandaríkjunum 30. október 2004, og Helga F. Charron, f. 1. ágúst 1936.

Sigrún Helga giftist 30. desember 1948 Hirti Sigurðssyni verslunarmanni, f. 8. ágúst 1922, d. 26. júní 1991. Hann var sonur hjónanna Sigurðar Sigurþórssonar, f. 10. september 1884, d. 12 mars 1970, og Kristínar Ólafsdóttur, f. 1. október 1888, d. 25. mars 1970. Sigrún Helga og Hjörtur eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Valgerður, f. 12. mars 1951, gift Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, f. 19. maí 1947, d. 14. febrúar 2015. Börn þeirra eru: a) Sigríður Elín, f. 25. febrúar 1976, barnsfaðir hennar er Haukur Már Einarsson, þau eiga dæturnar Kolbrúnu Tinnu og Valgerði. b) Sigurður Hannes, f. 28. febrúar 1982, sambýliskona hans er Sylvía Rúdolfsdóttir, þau eiga dótturina Álfrúnu Völu. Sonur Sylvíu úr fyrra sambandi er Theodór Guðlaugsson Chlothier. c) Sigrún Helga Ásgeirsdóttir, f. 29. október 1989. 2) Sigurður Jón, f. 18. september 1954, kvæntur Þórunni Óskarsdóttur, f. 11. október 1954. Þeirra börn eru: a) Hjörtur, f. 1. apríl 1984, sambýliskona hans er Björg Vigfúsdóttir, sonur þeirra er Bjarki. b) Hrefna f. 6. júlí 1989, og c) Snorri Þór f. 13. júlí 1994. 3) Kristín Jórunn, f. 9. ágúst 1960. Sambýlismaður hennar er Egill Eðvarðsson. Börn hennar og Guðmundar V. Friðrikssonar, f. 15. júní 1960, eru: a) Sigrún Margrét, f. 28. desember 1981, í sambúð með Jóhanni Axel Andersen. Þeirra börn eru Matthías Dagur og Soffía Lísbet. b) Gísli Geir Guðmundsson, f. 3. október 1990, í sambúð með Mörtu Rut Guðmundsdóttur, þeirra sonur er Frosti Leó, dóttir Mörtu úr fyrra sambandi er Natalía Kristín Karlsdóttir.

Ung fór Sigrún Helga í Húsmæðraskóla í Sorø í Danmörku. Þá fór hún snemma að vinna í Sundhöll Reykjavíkur og hún sinnti síðar húsmóðurstörfum ásamt því að vinna lengstan hluta starfsævinnar í Hagkaupum. Sigrún Helga og Hjörtur voru mikið útivistarfólk, þau stunduðu skíðaíþróttina, hestamennsku og voru óþreytandi að fara með börnin sín í útilegur.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Kynni okkar Sigrúnar Helgu hófust fyrir aðeins um ári, ég þá þokkalega stálpaður maðurinn, hún gömul falleg kona. Hafði heyrt ýmislegt um hana. Um að hún væri til dæmis líkleg til að hafa töluverðan fyrirvara á kynnum okkar.

Já, hafði heyrt að hún hefði nefnt að fyrra bragði við dóttur sína, Kristínu, að það væri kannski óþarfi að búa með þessu þótt maður ætti þetta fyrir vin! Þetta snarlega tilsvar Sigrúnar vakti strax áhuga minn á konunni og hljómaði ögn eins og mamma heitin hefði sagt undir svipuðum kringumstæðum. Þarf alltaf að vera vín! Nei, hvergi skyldi rasa um ráð fram. Allt þyrfti að skoða vel og vandlega og taka síðan ábyrgar ákvarðanir út frá því.

Um fullorðnar, viti bornar manneskjur væri að ræða. Punktur.

En kynni okkar Sissu ömmu kviknuðu af sjálfu sér og mátti varla á milli sjá hvort naut betur samvista við hitt. Ég held samt að ég hafi haft vinninginn. Nokkuð viss.

Fyrir utan stuttar heimsóknir á heimili hennar þar sem hún kynnti mig meðal annars fyrir stóru bleiku rósunum sínum, þykkum myndaalbúmum með upplituðum ljósmyndum af fjölskyldunni á ferð; við í Húsafelli, við í Þórsmörk og við á Þingvöllum, þá voru okkar tímar þó aðallega við sjúkrabeð hennar, ýmist á Hrafnistu, á Landspítalanum eða nú síðast á Vífilsstöðum.

Ég skil ekki af hverju þú nennir að heimsækja mig, sagði hún gjarnan. Hvað ætli sé varið í að heimsækja gamla dauðvona kellingu, sem hefur allt á hornum sér.

En því var fljótsvarað. Hér var hvorki um minnstu skyldurækni að ræða né vorkunnsemi. Ég heimsótti þessa fallegu gömlu konu einvörðungu vegna þess að mér þótti hún áhugaverð, mér þótti hún skemmtileg og svo er ég ekki frá því að hún hafi minnt mig ögn á mömmu heitna, sem kvaddi fyrir margt löngu.

Og hver voru þá umræðuefnin, sem tengdu okkur saman þannig að bæði nutu?

Jú, voru það ekki stóru málin; pólitíkin, fjárhagsstaða borgarinnar og fiskeldið? Nei, ekkert af þessum annars bráðnauðsynlegu málum, sem taka þarf á, setja í nefndir og útkljá með þjóðarhag í huga, bar á góma. Ekki heldur staða ferðaþjónustunnar.

Nei. Okkar umræðuefni hafði með að gera gamla dægurlagatónlist, hvort það var Alfreð eða Haukur sem söng

Frostrósir, nylonsokkasendingarnar 1946 í Kron og Kea, ólíkindatólið Skjóna, Noru Brockstedt, Gunnu systur og Stellu, Gunnhildi vinkonu, nýtísku uppblásnu rúmdýnuna sem mjúklega aðlagaði sig þreyttum líkamanum eða börnin, sem hún var svo óumræðilega stolt af og óskaði að myndu minnast hennar helst með því að halda hópinn. Þykja vænt hverju um annað.

Þessi mál og mörg af sömu stærðargráðu voru okkar mál. Mannamál eins og hún kallaði þau gjarnan. Mál, sem skiptu máli.

Og hér var hún, ýmist sofandi, þegar ég bankaði upp á, í lillabláa velúrsloppnum eða lesandi Vikuna og Se og Hör á hlébarðablússunni með hárspöngina í stíl, 93 ára gömul – og bara rjúkandi smekkleg og smart! Sannarlega til í svo sem eitt staup af hvítvíni fyrir svefninn eftir uppáhaldið sitt. Skraufþurra sandkökuna.

Mikið á ég eftir að sakna þín, elsku Sigrún.

Þinn

Egill Eðvarðsson.

Nú þegar mamma er dáin er löngum kafla í lífi mínu lokið – eftir standa minningar um geislandi konu sem var minn besti vinur.

Fyrir það er ég þakklát.

Valgerður Hjartardóttir (Bíbí).

Við systur þökkum fyrir hlýjar minningar og biðjum Guð að geyma ömmu Sissu.

Kolbrún Tinna og

Valgerður Sólborg

Hauksdætur.

Soffía Lísbet spurði hvort amma Sissa yrði jörðuð í sjóræningjakistu. Það er ekki skrýtið því hún var rosalegur harðjaxl og ólíklegt í huga þriggja ára barns að hún hefði látið í minni pokann fyrir neinum öðrum en ribböldum og ræningjum úthafanna.

Amma Sissa var sennilega hreinasta barnið í Reykjavík, því hún fékk að sulla í sturtuklefunum í Baðhúsunum á hverjum degi á meðan fósturmóðir hennar vann þar.

Hún var ein glæsilegasta stúlkan í Reykjavík alveg þangað til hún dó. Svo var hún líka listamaður, sótti námskeið í myndlist og málaði til að slaka á – og skapa.

Enda var hún myndræn og frumleg í hugsun og sá alltaf aðeins lengra en hinir. Amma Sissa var töffari, hún var hugrökk og gafst aldrei upp. Að því búa kynslóðir Sissubarna sem reyna að vera eins og amma.

Sigrún Margrét

og Gísli Geir.

Lítil stelpa kveður ömmu sína með söknuði en fyrst og fremst full þakklætis eftir ríflega fjörutíu og tveggja ára samveru.

Amma Sissa var sjálfstæð, sterk og stórglæsileg kona sem hafði ákveðnar skoðanir á öllu mögulegu og ómögulegu fram til síðasta dags.

Samskipti okkar ömmu voru einlæg og hispurslaus. Okkur fannst ágætt að taka lífið ekki allt of alvarlega og vorum sammála um að sólarleysi og skattframtöl væru heilsuspillandi.

Amma sagðist sátt eftir langt ævistarf og tilbúin að kveðja.

Ég kýs að sjá hana fyrir mér ganga til fundar við afa Hjört þar sem hann stendur glottandi og vatnsgreiddur með filterslausan Camel, sinnhvorn hestinn, tilbúinn í nýtt ferðalag.

Elsku amma Sissa, ég kveð þig eins og þú kvaddir mig.

Guð veri með þér.

Sigríður Elín

Ásgeirsdóttir.