Verðmat Capacent metur verðmæti Sjóvár 37% hærra en markaðurinn.
Verðmat Capacent metur verðmæti Sjóvár 37% hærra en markaðurinn. — Morgunblaðið/Eggert
Í nýju verðmati ráðgjafarfyrirtækisins Capacent í kjölfar sex mánaða uppgjörs tryggingafélagsins Sjóvár er fyrirtækið metið 37% hærra en núverandi markaðsverðmæti segir til um. Capacent metur verð hlutar í Sjóvá á 19,5 kr.

Í nýju verðmati ráðgjafarfyrirtækisins Capacent í kjölfar sex mánaða uppgjörs tryggingafélagsins Sjóvár er fyrirtækið metið 37% hærra en núverandi markaðsverðmæti segir til um. Capacent metur verð hlutar í Sjóvá á 19,5 kr. en markaðsverð hlutar var 14,2 kr. á degi verðmats þann 15. október. Þá var markaðsvirði Sjóvár 20,1 milljarður en verðmat Capacent er 27,6 milljarðar.

Fram kemur í verðmati Capacent að sé horft á hina fræðilegu tryggingasveiflu sé rekstur tryggingafélaga erfiðastur í lok hagvaxtarskeiðs líkt og nú, þegar tjón eru í hámarki vegna mikilla umsvifa í efnahagslífinu. Þessi tryggingasveifla kemur fram í rekstri Sjóvár en afkoma tryggingafélaga hefur verið lök á fyrri hluta ársins 2018. Afkoma af fjárfestingarstarfsemi fyrirtækisins er lakari en Capacent gerði ráð fyrir og nam 488 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2018 samanborið við 2,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Capacent lækkar vænta arðsemi fjárfestingareigna tryggingafélaganna og endurskoðun þess á rekstrarspá Sjóvár lækkar verðmat þess um 6%. Þá hefur nafnávöxtunarkrafa Sjóvár lækkað um 0,1% í 11,7%. Leiðir þetta til þess að verðmat Capacent á Sjóvá lækkar um 4,5% og fer úr 28,9 milljörðum í 27,6. Spá Capacent um samsett hlutfall ársins 2018 er óbreytt og gerir fyrirtækið ráð fyrir að það verði 98%. Er það nánast samhljóða endurskoðaðri áætlun félagsins sjálfs.

peturhreins@mbl.is