Tryggvi fæddist í Hamarkoti á Akureyri 20.10. 1902, missti móður sína er hann var sex ára og ólst síðan upp í Reykjavík og á ýmsum stöðum norðanlands. Foreldrar hans voru Hans Pétur Emil Petersen, búfræðingur, bóndi og verkamaður á Akureyri, og k.h.

Tryggvi fæddist í Hamarkoti á Akureyri 20.10. 1902, missti móður sína er hann var sex ára og ólst síðan upp í Reykjavík og á ýmsum stöðum norðanlands. Foreldrar hans voru Hans Pétur Emil Petersen, búfræðingur, bóndi og verkamaður á Akureyri, og k.h., Þuríður Gísladóttir.

Eiginkona Tryggva var Steinunn G. Jónsdóttir verkakona. Þau eignuðust tvær dætur.

Skólaganga Tryggva var sex vikna undirbúningur fyrir fermingu. Hann var smali á sumrin, fjárhirðir á vetrum frá fermingu og til sautján ára aldurs í Öxnadal, vinnumaður í Tungusveit, bóndi þar og í Bakkaseli og Fagranesi í Öxnadal, verkamaður á Akureyri 1930-47, innheimtumaður þar 1935-47 en studdist við búskap öll árin og hafði að mestu framfæri af honum til 1940. Hann var verkamaður í Reykjavík 1947-68, lengst af hjá Hitaveitu Reykjavíkur og eftirlitsmaður við hitaveituframkvæmdir hjá Hitaveitu Reykjavíkur á árunum 1962-68 er hann lét af störfum sökum heilsubrests.

Tryggvi var formaður Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, varaformaður verkamannafélagsins

Dagsbrúnar í Reykjavík, félagi í Kommúnistaflokki Íslands og Sósíalistaflokknum, sat í miðstjórn Sósíalistaflokksins og sat í miðnefnd Hernámsandstæðinga um árabil.

Tryggvi sendi frá sér ljóðabækur og skáldsögur. Það var þó fyrst og fremst ævisaga hans í þremur bindum, Fátækt fólk, 1976; Baráttan um brauðið, 1977, og Fyrir sunnan, 1979, sem vöktu verðskuldaða athygli sem vel samdar en átakanlegar lýsingar á kjörum fátæks fólks á Íslandi á uppvaxtarárum hans og fram eftir öldinni. Fátækt fólk varð metsölubók, fékk mikið umtal og fólki varð tíðrætt um það hversu vel bókin var skrifuð, af manni sem varla hlaut nokkra skólagöngu. Hún var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Tryggvi lést 6.3. 1993.