Samstarfshópur evrópskra fjölmiðla hefur birt gögn sem benda til þess að nokkrir af stærstu bönkum heims séu viðriðnir umfangsmikil skattaundanskot eða jafnvel skattsvik. Gögnin benda til þess að um 55 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 7.

Samstarfshópur evrópskra fjölmiðla hefur birt gögn sem benda til þess að nokkrir af stærstu bönkum heims séu viðriðnir umfangsmikil skattaundanskot eða jafnvel skattsvik. Gögnin benda til þess að um 55 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 7.400 milljarða króna, hafi verið skotið undan skatti í ellefu Evrópulöndum.

Gögnin eru samtals 180.000 blaðsíður og afrakstur samstarfs 18 evrópskra fjölmiðla, m.a. danska ríkisútvarpsins, Politiken, Le Monde, Die Zeit og þýska ríkissjónvarpsins. Þýska rannsóknarfréttastofan Correctiv stjórnaði samsstarfsverkefninu.

Meðal bankanna sem tengjast málinu eru Morgan Stanley, Barclays, Bank of America, Deutsche Bank, J.P. Morgan og Credit Suisse. Bankarnir og viðskiptavinir þeirra nýttu sér ýmsar gloppur í skattalögum og í lögum um arðgreiðslur hlutafélaga. T.a.m. beittu þeir þeirri aðferð að erlendir fjárfestar seldu banka í viðkomandi landi hlutabréf sín skömmu áður en arður var greiddur út með það fyrir augum að koma sér hjá því að greiða skatta sem lagðir eru á arðgreiðslur til erlendra hluthafa. Þeir keyptu síðan hlutabréfin aftur skömmu síðar og fengu arðgreiðslurnar.

Elstu gögnin eru frá árinu 2001 en þau nýjustu frá 2016.