Ráðstefna Arctic Circle, eða Hringborð norðurslóða, var sett í Hörpunni í gær og stendur fram á sunnudag.
Ráðstefna Arctic Circle, eða Hringborð norðurslóða, var sett í Hörpunni í gær og stendur fram á sunnudag. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hringborð norðurslóða, einnig þekkt sem Arctic Circle ráðstefnan, hófst í Hörpunni í gær, en því lýkur á sunnudaginn.

Hringborð norðurslóða, einnig þekkt sem Arctic Circle ráðstefnan, hófst í Hörpunni í gær, en því lýkur á sunnudaginn. Þar verða rædd ýmis málefni sem tengjast norðurslóðum en Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti lýðveldisins og forsvarsmaður ráðstefnunnar, setti ráðstefnuna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var annar tveggja hátíðarræðumanna í gær og lagði hún sérstaka áherslu á umhverfismál í ræðu sinni. Sagði Katrín meðal annars að málefni norðurslóða væru forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum. Þar væri efst á blaði mikilvægi umhverfisverndar og sjálfbærrar nýtingar hafsins.

Þá sagði Katrín einnig mikilvægt að norðurslóðir yrðu skilgreindar sem herlaust svæði í framtíðinni, þannig að ekki myndi koma til átaka stórveldanna um þær.

Hefur aldrei séð annað eins

Meðal gesta á ráðstefnunni er Sergei Kislyak, öldungadeildarþingmaður í Rússlandi og fyrrverandi sendiherra landsins í Bandaríkjunum. Í samtali við blaðamann mbl.is í gær þvertók Kislyak fyrir að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. „Við gerðum það ekki. Ég blandaði mér ekki í neitt sem getur mögulega talist afskipti,“ sagði Kislyak. Sagði hann rannsóknina á Rússatengslunum vera innanlandsátök á milli demókrata og repúblikana og að hann hefði aldrei séð Bandaríkin jafnklofin í andstæðar fylkingar á þeim rúmu 40 árum sem liðin eru síðan hann kom fyrst til Bandaríkjanna. hjortur@mbl.is/sgs@mbl.is