Karen Kjartansdóttir
Karen Kjartansdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pabbi og Davíð Oddsson voru með nákvæmlega eins hár sem ungir menn og ég get ekki sagt að ég hafi séð nokkurn mun á þeim í útliti nema þá að pabbi var með yfirvararskegg en ekki Davíð,“ segir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri...

Pabbi og Davíð Oddsson voru með nákvæmlega eins hár sem ungir menn og ég get ekki sagt að ég hafi séð nokkurn mun á þeim í útliti nema þá að pabbi var með yfirvararskegg en ekki Davíð,“ segir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, og segir það hafa legið nærri að hún hafi stundum haldið Davíð vera föður sinn.

„Þetta var þungur baggi á pabba að dóttirin tæki Davíð fyrir hann, þar sem hann deildi ekki pólitískum skoðunum með honum og í raun held ég að þetta hafi orðið til þess að hann byrjaði að láta sér vaxa yfirvararskegg. Ég sjálf finn enn fyrir furðulegri föðurvæntumþykju gagnvart Davíð Oddssyni.“

Það er ýmislegt svona sem maður beit í sig sem barn og unglingur sem eltist furðuseint af manni. Ég var að vinna í sjoppu og lagið Hey kanína með Sálinni hans Jóns míns og viðskiptavinur segir við mig; „Þetta lag er um þig, þú ert með kanínutennur.“ Ég flissaði með sjálfri mér og hugsaði með mér að konan skyldi ekki vita að þetta lag væri um klámsímalínur. „Heita lína“ var það sem ég heyrði í textanum og hélt í fullri alvöru og hafði alltaf haldið að það væri vísan í Rauða torgs símalínur.

Ég var svo orðin stálpaður unglingur þegar ég komst að því að ég þyrfti ekki að passa að hafa munninn lokaðan þegar ég var á gangi nálægt mýrlendi. Faðir minn hafði þá sagt mér ungri, í einhverjum göngutúrnum í sveitinni sem við bjuggum í, að í pollum í mýrum væru ljótar pöddur, svokallaðar brunnklukkur, sem færu upp í mann og því væri afar mikilvægt að opna ekki munninn, svo ég passaði mig og steinþagði.

Svo gerist það þegar ég er í kringum tvítugt að ég nefni hættuna á þessu við systur mínar og þær horfa á mig eins og ég hafi verið að vara þær við tröllum. Pabbi hefur pottþétt sagt þetta til að stoppa einhvern kjaftagang.“