[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi framtaksverkefnis um norðurslóðir, Arctic Initiative, við Harvard-háskóla, hratt af stað í gær, í samstarfi við Alþjóðaefnahagsráðið, nýjum leiðarvísi eða korti á netinu um málefni norðurslóða sem dregur fram helstu áskoranir svæðisins í dag. Verkefnið var kynnt á Arctic Circle-ráðstefnunni um norðurslóðir.

Samtals er um að ræða 124 gagnvirk kort sem ná yfir hnattrænar áskoranir, allt frá loftslagsmálum til atvinnuhorfa framtíðarinnar, hvernig þessar áskoranir tengjast og hvernig best sé að meta áhættu við ákvarðanatöku í þessum málaflokkum. Halla Hrund og félagar í Arctic Initiative sjá um að til staðar séu nýjustu sjónarmið leiðandi sérfræðinga um málefni norðurslóða en kortin eru aðgengileg á vefsíðu Alþjóðaefnahagsráðsins (weforum.org).

Forsenda betri ákvarðana

En fyrir hverja eru þessi kort?

„Þetta er hugsað fyrir ákvarðanatökuaðila. Þetta nýtist fyrir stjórnvöld, fjárfesta og fólk sem þarf að setja sig hratt inn í mál. Þetta er kort sem gefur færi á því að skilja heildarmyndina með aðgengilegum hætti,“ segir Halla Hrund og nefnir mikilvægi gagnvirkrar yfirsýnar.

„Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli að kortleggja málefni norðurslóða og átta okkur á því hvaða málefni þurfa sérstaklega mikla athygli á sviði stefnumótunar og í rannsóknum þannig að við getum haft nægar upplýsingar fyrir góðar ákvarðanir. Það að hafa svona gagnvirka yfirsýn um samspil málefna um norðurslóðir og annarra málefna í heiminum er afar mikilvægt,“ segir Halla. Hún nefnir í því sambandi samspil viðskipta á norðurslóðum við önnur málefni.

Miklir fjárfestingarmöguleikar

„Samspil stjórnmála og umhverfismála hefur mikil áhrif á viðskipti á norðurslóðum,“ segir Halla. „Það sem kom meðal annars fram á þessum fundi er að norðurslóðaríkin átta þurfa að leggja meiri áherslu á umhverfismálin. Það sem m.a. kallar á þessa auknu áherslu er aukin umferð skipa, og umsvif fyrirtækja. Við það eykst t.a.m. mengun og hættan á umhverfisslysum,“ segir Halla.

Á meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum voru Tero Varuaste, sem er framkvæmdastjóri Efnahagsráðs norðurslóða og forstjóri ísbrjótsfyrirtækisins Arctica Group, og Scott Minerd, sem er yfir fjárfestingum hjá bandaríska fjárfestingarsjóðnum Guggenheim Partners. „Þeir töluðu báðir um hina ótrúlega miklu möguleika fyrir fjárfestingar á þessu svæði. En spurningin er bara hvernig við framkvæmum þær í sátt við umhverfið með hagsmuni fólksins sem býr á norðurslóðum í huga,“ segir Halla.

Kort norðurslóða
» Í heild sinni er um að ræða 124 kort sem tengja saman hnattrænar áskoranir á gagnvirkan hátt.
» Kortin eru aðgengileg á vefsíðu Alþjóðaefnahagsráðsins.
» Nýju og uppfærðu korti um málefni norðurslóða var hleypt af stokkunum í gær.
» Arctic Initiative sér um að halda til haga nýjustu þekkingu á málefnum norðurslóða.