Ragnheiður Eyjólfsdóttir lagðist í rannsóknir.
Ragnheiður Eyjólfsdóttir lagðist í rannsóknir. — Morgunblaðið/Eggert
Í nýrri skáldsögu Ragnheiðar Eyjólfsdóttur koma fyrir ill líftæknifyrirtæki, hugdjörf ungmenni, tölvuþrjótar og stökkbreyttar bakteríur. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Ragnheiður Eyjólfsdóttir hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2015 fyrir sína fyrstu bók, Skuggasögu – Arftakann, sem segir frá ævintýrum Sögu sem berst við ill öfl í álfheimum. Rotturnar heitir ný skáldsaga hennar, sem er einnig ætluð ungmennum, en líka fullorðnum, en nú eru lesendur staddir í nútímanum, eða í það minnsta nútíma sem gæti orðið: Sögupersónurnar eru unglingar sem ráðnir eru nauðugir viljugir í sumarvinnu úti á landi og komast smám saman að því að ekki er allt með felldu. Við sögu koma hátæknileg siðblind líftæknifyrirtæki, stökkbreyttar svartadauðabakteríur og afkomendur Hval-Einars Herjólfssonar.

Aðspurð hvernig svo snúnar hugmyndir sem lesa má í bókinni rata saman nefnir Ragnheiður tvær uppsprettur: „Þetta hljómar kannski pínu skrýtið en ég bý erlendis og hef einhvern veginn flækst inn í áhugaverðan vinahóp samkynhneigðra karlmanna sem eru allir hámenntaðir doktorar í furðulegum hlutum og í þeim hópi koma fram alls konar furðuleg skemmtilegheit sem maður drekkur í sig.

Svo hef ég líka mikinn áhuga á tækni og vísindum, hef mikið pælt í því hvernig faraldrar fara af stað og les mikið um það á netinu og þegar ég datt um þessa svartadauðastökkbreytingu, CCR5-D32, tók sagan þessa stefnu. Ég las einnig nokkrar fræðibækur um smitsjúkdóma sem yfirsmitsjúkdómalæknir á LSH mælti með fyrir leikmenn,“ segir Ragnheiður og bætir við að stökkbreytingin geri það að verkum að maður verði ónæmur fyrir svartadauða en líka fyrir stórubólu, „en stórabóla er ekki mjög spennandi sjúkdómur“, segir hún og hlær. „Svartidauði er skemmtilegra fyrirbæri og því varð hann fyrir valinu, Auk þess sem saga hans á Íslandi er mun áhugaverðari.

Svartidauði kemur reglulega upp í heiminum, aðallega á vanþróuðum svæðum, en sjúkdómar eru alltaf að breyta sér, þeir vilja lifa áfram, og þetta gæti svosem gerst allt saman. Smitsjúkdómalæknar og aðrir sem rýna í svona fræði segja að það sé spurning um hvenær svona stór faraldur gangi yfir en ekki hvort.“

– Þótt sagan sé vissulega ævintýraleg er ekki svo erfitt að trúa því að slíkt og þvílíkt geti gerst.

„Ég lagði upp með að maður gæti hugsað með sér eftir lesturinn: Vá, þetta gæti gerst! Það er ekki allt raunhæft í sögunni og ég tek mér bessaleyfi til þess að sveigja einhverjar staðreyndir að söguþræðinum en ég geri mitt besta til að reyna að láta þetta allt ganga upp.“

– Bróðir Hilsifjar er tölvuþrjótur og skiptir talsverðu máli í sögunni. Ert þú tölvufróð?

„Upp að einhverju marki, ég kann ýmislegt fyrir mér þannig, en þeir sem eru sérfróðir munu hrista hausinn yfir einhverju. Flest af dótinu í sögunni er þó til í alvörunni og byggist á hugmyndum um „the internet of things“ þar sem allt er veftengt. Ég átti samtöl við fólk sem er sérhæft í tölvuöryggismálum sem benti mér á leiðir sem hægt væri að nýta í skáldsögum sem þessari. Þessar leiðir beygði ég svo aðeins og einfaldaði svo þær hentuðu sögunni betur.“

– Tvíleikurinn Skuggasaga var hreinar ævintýrabækur, en Rotturnar eiga rætur í raunveruleikanum.

„Ég er á þeim stað akkúrat núna; eftir Skuggasögu langaði mig til að gera eitthvað allt annað.“