Gullfoss I Þjóðverjar kyrrsettu flaggskip Eimskipafélagsins í Kaupmannahöfn 1940. Sjóvá greiddi skipið út. Það fannst eftir stríð illa farið í Kiel og hafði verið notað sem spítalaskip.
Gullfoss I Þjóðverjar kyrrsettu flaggskip Eimskipafélagsins í Kaupmannahöfn 1940. Sjóvá greiddi skipið út. Það fannst eftir stríð illa farið í Kiel og hafði verið notað sem spítalaskip. — Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Karl Christian Nielsen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sjóvá fagnar því í dag að 100 ár eru liðin frá því að Sjóvátryggingarfélag Íslands, forveri Sjóvár, var stofnað 20. október 1918. Það var fyrsta íslenska tryggingafélagið sem bauð upp á almenna vátryggingastarfsemi.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sjóvá fagnar því í dag að 100 ár eru liðin frá því að Sjóvátryggingarfélag Íslands, forveri Sjóvár, var stofnað 20. október 1918. Það var fyrsta íslenska tryggingafélagið sem bauð upp á almenna vátryggingastarfsemi. Stofnendur félagsins voru aðallega athafnamenn í Reykjavík. Þeirra á meðal var Sveinn Björnsson, sem síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins. Stofnun félagsins skömmu fyrir fullveldisdaginn 1. desember 1918 þykir táknræn fyrir vaxandi hug Íslendinga í sókn þeirra til sjálfstæðis á sem flestum sviðum þjóðlífsins á þessum tíma. Fram að stofnun Sjóvátryggingarfélagsins höfðu Íslendingar þurft að kaupa vátryggingar, nema brunatryggingar á húsum og lausafé, af erlendum vátryggingafélögum sem ráku hér umboðsskrifstofur. Stofnun félagsins markaði því tímamót.

Styður við slysavarnir

Í fyrsta merki Sjóvátryggingarfélags Íslands var teikning af togaranum Jóni forseta RE 108, en það var fyrsti togarinn sem var smíðaður sérstaklega fyrir Íslendinga og kom til landsins árið 1907. Togarinn strandaði við Stafnes á Reykjanesi 1928. Þar tókst að bjarga tíu mönnum úr áhöfninni en fimmtán fórust. Sama ár var Slysavarnafélag Íslands stofnað sem síðar sameinaðist Landsbjörg. Sjóvá hefur verið aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá sameiningu félaganna árið 1999.

Sjóvátryggingarfélag Íslands helgaði sig sjóvátryggingum og farmtryggingum til að byrja með. Fyrsti vátryggingasamningurinn var gerður um sjóflutninga 15. janúar 1919 við Jóhann Ólafsson & Co. og er hann enn í gildi 100 árum síðar. Líftryggingadeild Sjóvátryggingarfélagsins var stofnuð 1934 en þá var ekkert innlent líftryggingafélag starfandi hér. Árið 1937 hóf félagið að selja bílatryggingar og í kjölfarið fylgdu flugvélatryggingar, jarðskjálftatryggingar, ferða- og slysatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar.

Sjóvátryggingarfélagið keypti meirihluta í Hagtryggingu árið 1985 og var reksturinn sameinaður ári síðar. Almennar tryggingar, sem voru stofnaðar 1943, og Sjóvátryggingarfélag Íslands sameinuðust svo árið 1989 í Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sem í daglegu tali er nefnt Sjóvá. Félagið keypti Húsatryggingar Reykjavíkur hf. af Reykjavíkurborg árið 1996 og eignaðist vátryggingarfélagið Ábyrgð hf. að fullu, en félögin höfðu átt í samstarfi frá árinu 1991.

Rúmlega 1.200 hluthafar

Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvár, sagði að félagið hefði lagað sig að þróun samfélagsins og þörfum viðskiptavina og lagt áherslu á að vera nútímalegt þótt byggt sé á 100 ára grunni.

„Hlutverk félagsins hefur ekki breyst, það er að vera bakhjarl fólks og skapa því hugarró með því að selja því vernd gegn tjónum,“ sagði Sigurjón. „Við erum með ríflega fjórðungshlutdeild á íslenskum tryggingamarkaði þegar litið er til einstaklinga og fyrirtækja. Reksturinn er traustur og eignarhaldið stöðugt. Hermann Björnsson forstjóri tók við stjórn félagsins árið 2011 og hefur stjórn þess að stærstum hluta setið frá þeim tíma eða fyrr. Félagið er skráð í kauphöll og eru hluthafar rúmlega 1.200 talsins. Um 175 manns starfa hjá Sjóvá um allt land.

Við erum stolt af stöðu okkar á afmælisárinu. Sjóvá var valið Fyrirtæki ársins 2018 í vinnumarkaðskönnun VR, sem er sú umfangsmesta á Íslandi, og við leggjum mikla áherslu á að viðhalda starfsánægju innan fyrirtækisins. Við erum ánægð yfir að vera í hópi fimm stærri fyrirtækja sem fengu titilinn „framúrskarandi fyrirtæki“. Félagið náði því einnig að vera efst tryggingafélaga í Ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina á landsvísu. Þá vorum við efst fjármálafyrirtækja í starfsánægju starfsfólks. Við vorum í hópi fyrstu fyrirtækja sem fengu jafnlaunavottun VR og stöndum framarlega á öllum mælikvörðum sem viðkoma jafnrétti.“