Alþingi Á þessu ári hafa þingmenn kallað inn varamann í alls 57 skipti þegar þeir hafa horfið af þingi tímabundið.
Alþingi Á þessu ári hafa þingmenn kallað inn varamann í alls 57 skipti þegar þeir hafa horfið af þingi tímabundið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Færst hefur í vöxt að alþingismenn kalli inn varamenn þegar þeir hverfa af þingi tímabundið. Árið í ár verður metár en það sem af er ári hafa varamenn verið kallaðir inn í 57 skipti.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Færst hefur í vöxt að alþingismenn kalli inn varamenn þegar þeir hverfa af þingi tímabundið. Árið í ár verður metár en það sem af er ári hafa varamenn verið kallaðir inn í 57 skipti.

Meðalkostnaður varaþingmanns í eina viku árið 2018 hefur verið 402.000 krónur, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi, og er kostnaðurinn því orðinn alls tæpar 23 milljónir.

Varamaður situr á þingi í eina viku þótt erindi aðalmanns vari skemur.

Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins sl. miðvikudag sitja 10 varaþingmenn á Alþingi í þessari viku eða 16% þingheims. Kostnaður Alþingis vegna varamanna er því um fjórar milljónir fyrir vikuna. Þessi mikli fjöldi varamanna skýrist að hluta til af því að alþjóðastarf þingmanna er umfangsmikið í október.

Morgunblaðið sneri sér til Alþingis og leitaði upplýsinga um þróun fjölda varamanna á undanförnum árum. Eins og meðfylgjandi tafla ber með sér hefur fjöldinn farið vaxandi, frá því að vera 23 árið 2011 upp í 57 í ár. En þess ber að geta að enn eru tæpir tveir mánuðir eftir af þinghaldi þessa árs og því gæti talan hækkað. Samkvæmt starfsáætlun fyrir 149. löggjafarþingið verður síðasti þingfundur fyrir jól föstudaginn 14. desember en þinghaldið gæti dregist eins og dæmin sanna.

Árið 2011 var kostnaður við varaþingmenn 21,2 milljónir en 33 milljónir 2015, sem var útgjaldafrekt ár, enda varamenn kallaðir inn í 54 skipti. Morgunblaðið fékk uppgefinn kostnað fyrir átta síðustu ár, frá 2011 til 2018, að báðum meðtöldum. Reyndist hann vera 166 milljónir króna samtals.

Samkvæmt upplýsingum Sólveigar K. Jónsdóttur, forstöðumanns almannatengsla á Alþingi, er kostnaður vegna varamanns í eina viku 350.676 krónur í grunninn. Ef þingmaður er búsettur utan höfuðborgarsvæðisins bætist við kostnaður vegna ferða og uppihalds sem er á bilinu 58.000 til 165.000 kr., allt eftir því hvort viðkomandi keyrir á milli heimilis og Alþingis eða þarf að fljúga til Reykjavíkur og búa á hóteli þar. Meðalkostnaður varaþingmanns í eina viku árið 2018 hefur sem fyrr segir verið 402.000 kr.

Gert ráð fyrir kostnaði

Aðspurð segir Sólveig að í rekstraráætlun Alþingis sé gert ráð fyrir kostnaði vegna varaþingmanna út frá þeim fundum og ráðstefnum sem fyrirhuguð eru ár hvert, en alltaf geti komið upp óvænt forföll sem ekki verða séð fyrir.

Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá þingfundasviði Alþingis á þingmaður sem tekur inn varamann aðeins rétt á greiðslum ef hann er frá vegna veikinda eða í opinberum erindum erlendis á vegum Alþingis í fimm daga hið skemmsta.

Annars gilda eftirfarandi reglur:

Varamaður skal fá greitt þingfararkaup frá þeim degi sem tilkynnt er á þingfundi eða á vef að hann taki sæti á Alþingi og til þess tíma að tilkynnt er að aðalmaður taki sæti á ný. Greiðsla til varamanns fellur þó niður við þingfrestun og upphaf hefðbundinna þinghléa (jólahlés, páskahlés) samkvæmt starfsáætlun nema forföll aðalmanns séu vegna veikinda og vari samfellt svo lengi á sama þingi að varamaður sitji áfram við framhald þingstarfa. Þingfararkaup varamanns skal greitt sem hlutfall eftir lengd þingsetu. Endurgreiða skal varamanni ferða- og dvalarkostnað í Reykjavík. Eftir fjögurra vikna setu á Alþingi skal varaþingmaður, auk þingfararkaups, fá hlutfallslega fastar greiðslur þingfararkostnaðar sem aðalmaður á rétt á, þó ekki álag á húsnæðis- og dvalarkostnað.

Heimilt er að greiða dvalarkostnað í Reykjavík en þá fellur niður greiðsla húsnæðis- og dvalarkostnaðar.