— Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Seinna í leiknum féll Kári í gólfið, með að minnsta kosti þrjá varnarmenn Aftureldingar á bakinu; sú bylta hlýtur að hafa komið fram á skjálftamælum Veðurstofu Íslands.

T il eru persónur sem taka yfir heilu herbergin, salina og jafnvel húsin með nærveru sinni. Þær þurfa ekki endilega að segja neitt, gera neitt, bara anda. Svo sterk er nærvera þeirra. Ég fór að hugsa um þetta þegar Kári Kristján Kristjánsson, handboltamaður í ÍBV, brokkaði inn á gólfið á Varmá í Mosfellsbæ í vikunni. Mínir menn í Aftureldingu höfðu tögl og hagldir í leiknum framan af en þá sá þjálfari Eyjamanna ástæðu til að skipta Kára inn á. Og vogaraflið snerist á punktinum á sveif með gestunum.

Ekki er nóg með að Kári sé maður í tröllslíki, nánast tveir menn í einum, áran yfir honum er alveg fáránlega sterk. Sogar fyrirhafnarlaust til sín alla athygli viðstaddra. Síðan byrjaði hann raunar að raða inn mörkum en það var bara bónus fyrir Eyjamenn.

„Jæja, þarna kemur kyntröllið,“ gall í áhorfanda fyrir aftan mig; karlmanni sem leit ekki eitt augnablik út fyrir að vera í „hinu liðinu“. Ég veit ekki hvort það er beinlínis kynorka en alltént fylgir einhver orka Kára. Óræð orka. Það er klárt mál. Ekki var annað að sjá en að hann tæki yfir leikinn – með augunum. Togaði í streng og annan.

Seinna í leiknum féll Kári í gólfið, með að minnsta kosti þrjá varnarmenn Aftureldingar á bakinu; sú bylta hlýtur að hafa komið fram á skjálftamælum Veðurstofu Íslands. „Er það Katla?“ hefur vaktmaðurinn galað, náhvítur í framan. „Er það Katla?“

Ég þekki Kára ekki neitt og hef satt best að segja ekki kynnst mörgum svona mönnum gegnum tíðina. Einn kemur þó strax upp í hugann: Jón Ásgeirsson, tónskáld og tónlistargagnrýnandi þessa blaðs í áratugi. Maður fann alltaf þegar hann var kominn í hús niðri á gamla Mogga í Kringlunni, jafnvel þótt maður hvorki heyrði hann né sæi. Hann var bara kominn.

Það gustaði af Jóni og gerir vísast enn en tónskáldið hélt upp á níræðisafmæli sitt á dögunum. Um nokkurra ára skeið tók ég gjarnan við dómum hans á ritstjórninni sem hann kom með á Macintosh-diskum og það löngu eftir að tölvupóstur kom til sögunnar. Jón var raunar með fyrstu mönnum til að koma sér upp netfangi en lokaði því snarlega skömmu síðar. Hvers vegna? Jú, fólk var alltaf að senda honum póst, þannig að enginn tími gafst til að kompónera. Tæknin getur strítt manni á marga lund.

Einatt var glatt á hjalla þegar Jón stakk við stafni á ritstjórninni. Og ekki var verra að hafa aðra goðsögn, Braga heitinn Ásgeirsson, listmálara og -rýni, á svæðinu. Sagnamaðurinn Jón hlóð þá í og gleymdi gjarnan að Bragi var heyrnarlaus og þurfti að sjá varirnar á honum hreyfast til að fá einhvern botn í sögurnar. Jón sagði frá með öllum líkamanum, fetti sig og bretti, þannig að þeir félagar snerust hvor í kringum annan á gólfinu. Óborganlegt stöff og ógleymanlegt öllum þeim sem þar voru staddir.

Til hamingju með afmælið, kæri Jón! Okkar Kári.