Akureyrarflugvöllur Reglubundið leiguflug hófst frá Bretlandi í fyrravetur og nú í vetur er áætlað að yfir 5.000 ferðamenn komi þaðan.
Akureyrarflugvöllur Reglubundið leiguflug hófst frá Bretlandi í fyrravetur og nú í vetur er áætlað að yfir 5.000 ferðamenn komi þaðan. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að óska eftir því að Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar afli gagna til að gera viðskipta- eða rekstraráætlun fyrir Akureyrarflugvöll og kanna áhrif fjölgunar farþega með auknu millilandaflugi og rekstrargrundvöll vallarins. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að áætlunin geti orðið grundvöllur samningaviðræðna við ríkið um að Akureyrabær taki yfir rekstur vallarins og annist nauðsynlega uppbyggingu gegn því að fjárfestingin fáist til baka með leigugreiðslum.

Í skýrslu sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir Eyþing kemur fram að kostnaður við að byggja nýja flugstöð og breyta þeirri gömlu gæti orðið tæpir 1,5 milljarðar kr., kostnaður við flughlöð 1,6 milljaðar og uppsetning á ILS-aðflugsbúnaði 180 milljónir, samtals rúmlega 3,2 milljarðar kr. Efla telur að framkvæmdatími við flugstöð yrði að lágmarki 2 ár og við flughlöð 3 ár.

Aðflugsbúnaðurinn verður settur upp á næsta ári en framkvæmdir við flughlöð og flugstöð eru á tillögu að samgönguáætlun eftir 5-15 ár, að vísu með ákveðnum fyrirvörum.

Fjölgun ferðamanna er leiðin

Málefni flugvallarins voru rædd í bæjarráði Akureyrar í fyrradag, að beiðni Gunnars Gíslasonar. Samþykkt var að óska eftir söfnun gagna sem hann lagði til, í þeim tilgangi að undirbyggja hugsanlega samninga um yfirtöku bæjarins á flugvellinum og uppbyggingu þar.

Gunnar vekur athygli á fréttum um að hótelrekstur á landsbyggðinni beri sig ekki og að nú stefni í það að Akureyri verði ósjálfbært sveitarfélag vegna skorts á fólki á vinnufærum aldri. Eina leiðin til að bregðast við þessu sé að fjölga ferðafólki og efla ferðaþjónustuna. Það muni einnig fjölga störfum. Þess vegna þurfi að koma flugvellinum í það horf að aðstaða verði til að taka við reglulegu áætlunarflugi til viðbótar við það leiguflug sem hafið er.

„Þetta er lykilatriði í því að styrkja Akureyri, Eyjafjörð og Norðurland allt. Ég hef bent á það að ef ríkið er ekki tilbúið til að koma að þessu með beinum hætti séu aðrar leiðir hugsanlegar. Akureyrarbær fjármagni framkvæmdirnar og semji um að leiga standi undir fjárfestingunni. Þetta hefur að vísu áhrif á skuldastöðu bæjarins en við getum ekki setið með hendur í skauti,“ segir Gunnar.

Reksturinn verði sjálfbær

Hann segir að sú athugun sem bæjarráð ákvað að óska eftir feli í sér, meðal annars, að kanna áhrif aukins ferðamannafjölda og aukinnar ferðaþjónustu á svæðið og þjóðfélagið allt og hvað þurfi til þess að Akureyrarflugvöllur verði sjálfbær rekstrareining. Markmiðið sé að undirbyggja slíka samninga. Sjálfur telur Gunnar að ekki þurfi mikið að koma til. Nú fari rúmlega 200 þúsund farþegar um völlinn á ári en farþegarnir þurfi að vera á bilinu 300 til 500 þúsund til þess að völlurinn verði sjálfbær.