Fallið skýli Litlu gjaldskýlin höfðu lokið hlutverki sínu og urðu að víkja.
Fallið skýli Litlu gjaldskýlin höfðu lokið hlutverki sínu og urðu að víkja. — Ljósmynd/Spölur
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Starfsmenn verktakafyrirtækisins Þróttar ehf. unnu við það í vikunni að fjarlægja tvö af þremur gjaldskýlum Hvalfjarðarganga með stórvirkum gröfum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Starfsmenn verktakafyrirtækisins Þróttar ehf. unnu við það í vikunni að fjarlægja tvö af þremur gjaldskýlum Hvalfjarðarganga með stórvirkum gröfum. Þeir brutu jafnframt upp rammlega járnbent steypuvirki sem skýlin standa á milli akreina.

Vegagerðin tók við göngunum um síðustu mánaðamót og það var hennar ósk að Spölur fjarlægði gjaldskýlin. Kostnaður við niðurrifið var áætlaður um 15 milljónir króna. Stærsta gjaldskýlið mun standa áfram, þótt ekkert gjald sé nú innheimt, en þar inni eru ýmiss konar lagnir og búnaður sem tilheyrir starfsemi Hvalfjarðarganga.

Verktakinn við gangagerðina, Fossvirki, reisti gjaldskýlin í aðdraganda þess að göngin voru opnuð sumarið 1998. Hönnuður þeirra var Magnús H. Ólafsson arkitekt á Akranesi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Spalar. Hugmyndin var sú að stóra skýlið í miðjunni yrði miðstöð innheimtu veggjalds og starfsemi Spalar á norðurströnd Hvalfjarðar en litlu skýlin beggja vegna virkjuð til innheimtu á álagstímum svo auka mætti afköst og greiða fyrir umferð.

„Útirukkarar“ tóku við

„Þannig voru skýlin þrjú notuð til að byrja með en fljótlega kom í ljós að fyrirkomulagið reyndist ekki nægilega skilvirkt og tvö þessi litlu voru aflögð sem gjaldskýli. Í staðinn voru settir „útirukkarar“ á vakt á mestu annatímum til að flýta fyrir afgreiðslu þeirra sem greiddu fyrir stakar ferðir með peningum eða afsláttarmiðum.“

Annað litla skýlið varð eftir það birgðageymsla en hitt gegndi hlutverki rýmis fyrir tæknibúnað tilheyrandi rekstri ganganna.

Starfsmenn Spalar kölluðu litlu gjaldskýlin gjarnan „hundakofa“ sín á milli, segir í fréttinni.