Árni Guðmundsson fæddist 19. janúar 1955. Hann lést 20. september 2018.

Útför Árna var gerð 3. október 2018.

Fáein orð til að minnast Árna Guðmundssonar af hlýhug og virðingu. Ég kynntist Árna gegnum körfuboltann, en ákveðinn hópur hefur spilað saman í tugi ára á föstudögum í Kópavogsskóla, þetta er góður hópur og ávallt verið passað upp á að kappið beri ekki fegurðina ofurliði.

Árni var vel liðtækur í körfubolta og hafði sínar hreyfingar sem voru illstöðvanlegar, t.d. þegar hann hljóp endalínuna, hoppaði upp á vinstri fæti og skaut með annarri hendi í spjaldið og ekkert nema net, tvö stig. Hann hafði einnig gott jafnvægi í stökkskotum, hallaði sér til hægri í loftinu og skoraði, þetta er ekki öllum gefið.

Ég kynntist hlýleika Árna og jákvæðni á þessum æfingum. Þótt hann flíkaði ekki tilfinningum of mikið hrósaði hann manni margoft í hita leiksins og þegar hann talaði þá hlustaði maður, enda er oft ágætt að bera virðingu fyrir eldra fólki sem hefur mótað farveg fyrir komandi kynslóðir.

Árni, þín verður saknað í þessum hópi. Takk fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu þinnar.

Einar Þór Ásgeirsson.