Gunnar Kristinn Þórðarson
Gunnar Kristinn Þórðarson
Eftir Gunnar Kristin Þórðarson: "Ofstopafemínistar freista þess að svipta málsvara foreldrajafnréttis æru og lífsviðurværi."

„Það að elska hverjir aðra, er það sama og að hata sameiginlegan óvin,“ sagði franski heimspekingurinn Jean-Paul Sartre. Sjálfur er ég ekki jafn bölsýnn á mannlegt eðli og Sartre en verð þó að viðurkenna að afstaða heimspekingsins endurspeglar sterka tilhneigingu í hóphegðun karla og kvenna. Má til dæmis sjá hana í ríkulegum mæli í hópefli öfgafulls femínisma.

Við ýmis tækifæri hef ég, sem talsmaður foreldrajafnréttis, vakið athygli á femínistaskjölunum svokölluðu, sem eru skjáskot af umræðum á Facebook, þar sem hópur ofstopafólks sem kennir sig við femínisma lagði á ráðin um að eyðileggja með skipulögðum hætti mannorð allra þeirra sem tala máli umgengnisforeldra sem ekki fá að umgangast börn sín. Þegar ég komst að þeim áformum brást ég til varnar þegar í stað sem formaður Samtaka umgengnisforeldra, og stuðlaði að stofnun Karlalistans vegna þátttöku stjórnmálamanna í aðförinni. Ég gerði mér hins vegar enga grein fyrir hversu langt þetta öfgafólk var reiðubúið til að ganga til að koma æru og mannorði heiðarlega manna, og reyndar kvenna einnig, fyrir kattarnef. Á meðal gerenda voru prestur, verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands, lögmaður, ritstjóri Stundarinnar, þjóðþekktur blaðamaður, formaður Kvennaathvarfsins, ráðgjafi forsætisráðherra í jafnréttismálum og varaformaður Samfylkingarinnar. Um 2.400 manns horfðu á og klöppuðu ósómann upp. Þar fyrir utan fékk þetta öfgafólk umræðugrundvöll á Femínistaspjallinu á Facebook og átti náið samstarf við ritstjórn femíníska sorpmiðilsins Knuz.is.

Hafa þessi nettröll gengið fram með slíkum mannorðsmeiðingum að óhætt er að fullyrða að annað eins hafi ekki sést á prenti. Þrátt fyrir þetta allt er forherðingin slík að þau sendu á dögunum tölvupóst á alla alþingismenn, þar sem þingmenn voru hvattir til að hafna tálmunarfrumvarpi Brynjars Níelssonar, sem er í reynd eina vonarglæta þolenda tálmunarofbeldis til að sjá börn sín á ný.

Skríllinn nam þó ekki staðar við óhæfuverk sín á Facebook, heldur tók upp á því að setja sig í samband við atvinnurekendur þeirra sem talað hafa máli þolenda umgengnistálmana til að freista þess að svipta þá æru og lífsviðurværi með lygum og ærumeiðingum. Að auki þurfa þeir sem eru í einkarekstri að sæta því að spillt er fyrir viðskiptasamböndum og tekjumöguleikum með sambærilegum hætti. Nægilega mörg slík dæmi eru staðfest til að hægt sé að fullyrða að um skipulagða herferð sé að ræða, og í einhverjum tilfellum hefur öfgafólkið náð árangri.

Hið óhugnanlega er hversu skipulega er gengið til þessara óhæfuverka – og er það gert í nafni femínismans.

Ofstopafemínistar geta að sönnu elskað hverjir aðra – en aðeins ef þeir fá að hata alla þá sem eru þeim ósammála.

Höfundur er með BA í guðfræði, MPA í opinberri stjórnsýslu, formaður Samtaka umgengnisforeldra og fyrrverandi formaður Karlalistans.

Höf.: Gunnar Kristin Þórðarson