Snjóflóð Menn koma oft snjóflóðum af stað til fjalla. Mynd úr safni.
Snjóflóð Menn koma oft snjóflóðum af stað til fjalla. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Snjóflóð af mannavöldum voru tíð síðastliðinn vetur og virðast verða tíðari með hverjum vetri.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Snjóflóð af mannavöldum voru tíð síðastliðinn vetur og virðast verða tíðari með hverjum vetri. Þetta kemur fram í skýrslunni Snjóflóð á Íslandi veturinn 2017-2018 eftir Óliver Hilmarsson, sérfræðing á sviði snjóflóða hjá Veðurstofu Íslands.

Um veturinn voru skráð 63 snjóflóð af mannavöldum. Eitt féll í lok desember og sex í janúar. Öll önnur flóð af mannavöldum féllu frá fyrstu vikunni í mars og fram í miðjan maí. Vélsleðamenn, göngumenn eða skíðamenn komu snjóflóðunum af stað. Einnig snjótroðarar og ótilgreinar ástæður. Göngumaður slasaðist alvarlega í snjóflóði við Ísafjörð í maí. Í sama mánuði voru tveir menn hætt komnir vegna ofkælingar eftir að þeir settu af stað snjóflóð í Grímsfjalli á Vatnajökli.

Mörg snjóflóð eru ekki skráð

Í skýrslunni er gerð grein fyrir öllum skráðum snjóflóðum frá 1. september 2017 til 1. september 2018. Á því tímabili voru skráð 683 ofanflóð í ofanflóðagagnasafn Veðurstofunnar. Þar af voru 650 snjóflóð, 31 skriðuföll og tvö vatnsflóð. Ellefu snjóflóðahrinur voru skráðar, þ.e. mörg snjóflóð sem falla í sama veðrinu, stundum yfir nokkurra daga tímabil og yfirleitt í sama landshlutanum. Vitað er að fjölmörg flóð falla á hverju ári án þess að eftir þeim sé tekið eða þau skráð.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir sjö sinnum um veturinn. Einu sinni var lýst yfir hættustigi en það var á Seyðisfirði 14.-15. mars.

Snjóflóð féllu 62 sinnum og lokuðu vegum á þeim svæðum þar sem Veðurstofan gefur út snjóflóðaspá. Miðað er við að snjóflóðið falli yfir þjóðveg eða aðra vegi og vegslóða sem almenningur notar. Vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaðist oftast vegna snjóflóða á snjóflóðaspársvæðum þennan vetur eða fimmtíu sinnum og næst kom Siglufjarðarvegur sem lokaðist níu sinnum. Alls voru skráð 129 snjóflóð og þrjú skriðuföll sem féllu á vegi landsins um veturinn.

Fram kemur í frétt Veðurstofunnar að snjóflóðavarnir hafi sannað gildi sitt enn einu sinni í fyrravetur. Þær auki öryggi fólks til muna og vegna þeirra þurfi að rýma hús mun sjaldnar á svæðum sem eru varin fyrir snjóflóðum. Fram kemur að ef snjóflóðavarnirnar hefðu ekki verið til staðar hefði líklega þurft að rýma mörg hús til dæmis á Siglufirði, Flateyri og í Bolungarvík í nóvember 2017.