Rökkurdagar Valgeir Guðjónsson segir frá tilurð lags síns og texta sem hann afhenti Grundfirðingum.
Rökkurdagar Valgeir Guðjónsson segir frá tilurð lags síns og texta sem hann afhenti Grundfirðingum. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Gunnar Kristinsson Grundarfirði Rökkurdagar nefnist árleg menningardagskrá sem nú stendur yfir og lýkur á sunnudag. Dagskráin hefur verið óvenju margbreytileg og margt góðra viðburða.

Úr bæjarlífinu

Gunnar Kristinsson

Grundarfirði

Rökkurdagar nefnist árleg menningardagskrá sem nú stendur yfir og lýkur á sunnudag. Dagskráin hefur verið óvenju margbreytileg og margt góðra viðburða. Síðastliðinn sunnudag heimsóttu okkur heiðurshjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson ásamt dóttur sinni, Vigdísi Völu.

Í Sögumiðstöðinni kynnti Ásta bók sína „Það sem dvelur í þögninni“ og rakti fyrir viðstöddum hvernig ættarþræðir hennar lágu víða um landið, svo ekki sé minnst á alla leyniþræðina. Valgeir var svo mættur í Grundarfjarðarkirkju um kvöldið til að frumflytja og afhenda Grundfirðingum lagið sitt, „Í góðu veðri á Grundarfirði“, sem hann samdi fyrir allmörgum árum í sumarhúsi í nágrenni bæjarins. Með Valgeiri við flutninginn var dóttir þeirra hjóna og kvennaraddir úr Kirkjukór Grundarfjarðarkirkju. Var gerður góður rómur að þessu lagi sem án efa á eftir að hljóma á hinum ýmsu hátíðum bæjarins í framtíðinni, þá væri jafnvel hægt að hnika til texta og syngja t.d. Á góðri stund í Grundarfirði.

Það má segja að Rökkurdagarnir hafi byrjað með góðri sviðaveislu Félags eldri borgara sl. laugardagskvöld, því enginn nýtur menningar með tóman maga. Innreið bílaaldar í Eyrarsveit voru svo gerð góð skil í fyrirlestri Inga Hans Jónssonar, grúskara og sagnaþular, sem bar yfirskriftina „Með kaskeiti við stýrið“. Að sögn Inga kom fyrsti bílinn í Eyrarsveit um 1938 og var í eigu Kristlaugs Bjarnasonar sem kenndur var við bæinn Grund í Eyrarsveit. Þetta var nokkurskonar fólksflutningavörubíll sem fljótt fékk viðurnafnið Skruggu-Blesi. Það má undrum sæta hversu menn voru þrautseigir að komast um á þessum fararskjótum nútímans á þeim vegleysum sem fyrir hendi voru í upphafi bílaaldar.

Ungur brottfluttur myndlistarmaður, Ísak Snorri Marvinsson, veitti Grundfirðingum „Innsýn“ í verk sín á sinni fyrstu einkasýningu og má sjá myndir hins unga listamanns á veggjum Samkomuhússins út Rökkurdaga.

Kvenfélagið Gleym mér ei lét ekki sitt eftir liggja og setti í Samkomuhúsinu á fót haustmarkað þar sem boðið var upp á súpu og brauð ásamt því að selja handverk og ýmislegt góðgæti. Auk þess sem að framan er talið hefur ýmislegt annað verið á dagskrá þessa Rökkurdaga, s.s. örnefnagönguferð, bíósýningar, tónleikar o.fl. o.fl.

Frumkvöðlar finnast í Grundarfirði og þar má nefna Signýju Gunnarsdóttur sem stundar nú silkiormarækt í bílskúr. Til skamms tíma hefði slík ræktun verið talin ómöguleg á Íslandi en Signý hefur náð að ala nokkrar kynslóðir silkiorma og fá nokkur hundruð metra af silkiþræði. Mest spennandi við þessa ræktun er hvort Signýju tekst að ala ormana á afurðum sjávarplantna.

Gunnar Kristjánsson

Höf.: Gunnar Kristjánsson