Söngvarinn Justin Timberlake verður slími að bráð á barnaverðlaunahátíð í Los Angeles um árið.
Söngvarinn Justin Timberlake verður slími að bráð á barnaverðlaunahátíð í Los Angeles um árið. — Reuters
Brögð eru að því að keyptur sé hreinsivökvi fyrir augnlinsur í gleraugnabúðum í þeim tilgangi að búa til slím sem börn leika sér með.

Fljótt á litið blasir ekki við að börn finni efni í ný leikföng í gleraugnaverslunum. Það er þó staðreynd að fólk hefur undanfarin misseri verið að festa kaup á hreinsivökva fyrir augnlinsur í slíkum verslunum til að búa til slím sem lengi hefur verið vinsælt leikfang meðal barna hér heima og erlendis. Þetta staðfestir Guðbjörg Ketilsdóttir, sjóntækjafræðingur hjá gleraugnaversluninni Auganu, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Ekki mun þetta þó vera í stórum stíl en einn og einn viðskiptavinur hefur komið í verslunina í þessu augnamiði. „Áhugi á slímgerð hefur verið í gangi öðru hverju undanfarin ár. Fyrst voru börnin á aldrinum 9 til 10 ára en nú eru þau frá 5 ára og upp úr,“ segir Guðbjörg, sem raunar hefur á tilfinningunni að heldur sé að draga úr þessum áhuga frekar en hitt.

Beðin um skýringar svarar Guðbjörg: „Ætli þetta stafi ekki af því að fólki þykir skemmtilegra að búa slímið til frá grunni en að kaupa það tilbúið í búð. Eflaust er þetta líka ódýrara. Þetta virkar greinilega vel, annars væri fólk ekki að þessu. Einn byrjar og aðrir vilja líka prófa.“

Spurð hvaðan hugmyndin sé komin svarar hún: „Mjög líklega af YouTube, eins og svo margt annað.“