Guðmundur Arnar Hermannsson fæddist 21. maí 1962. Hann lést 28. september 2018. Útförin fór fram 11. október 2018

Elsku hjartans vinurinn, nú hefur þú kvatt þennan heim eftir erfiða baráttu. Þú barðist eins og hetja, alltaf svo jákvæður og með þá hugsun að létta okkur hinum gönguna. Ekki veit ég hvernig ég fer í gegnum þessa erfiðu tíma, það er erfitt að hugsa sér veturinn án þín og komandi sumar. Þú varst alltaf með mér í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, jafnt úti sem inni og allt var gert með gleði í hjarta.

Þó þú hafir þurft að hætta á sjónum veikindanna vegna, þá yfirgaf sjómennskan þig aldrei. Þú hringdir daglega í bræður þína og spurðir aflafregna og þegar heilsa leyfði, fórst þú og landaðir með þeim, elskaðir að finna ilminn af sjónum og standa vaktina á krananum.

Þér var mjög umhugað um líðan allra í kringum þig, varla leið sá dagur að ekki væri hringt í börnin okkar til að athuga hvernig dagurinn hefði gengið. Þá fengu þau að heyra hvernig dagurinn okkar hefði verið og hvað við hefðum áorkað þann daginn. Það var alltaf stutt í grín og glens, jafnvel send mynd eða myndband. Þessar myndir getum við nú skoðað og hugsað til þín, rifjaðar upp góðar minningar, ýmist grátið eða hlegið.

Þú varst mikill íþróttaunnandi, elskaðir fótbolta og varst mikill aðdáandi Man. Utd og lagðir þitt af mörkum til að stækka klúbbinn bæði með þínum börnum og annarra. Það var oftar en ekki auðvelt fyrir þig að sannfæra systkinabörnin okkar um að United væri besta liðið. Þér var þá einnig umhugað um að börnin okkar stunduðu íþróttir enda lagðir þú mikið upp úr heilbrigðu líferni. Ég mun ekki gleyma þeim stundum sem við áttum saman í heilsuræktinni, hjóla-, göngu- og hlaupaferðunum okkar fram í dal, eða öllum fótboltamótunum og ferðalögunum sem við fórum með börnunum okkar. Þær voru allar yndislegar og vekja góðar minningar.

Elsku Gummi minn, það verður erfitt að koma heim úr vinnunni og heyra ekki „hæ hæ, ertu kominn? Komdu og spjallaðu við mig“ eða „komdu og fáðu þér kaffi með mér“. Elsku vinur, þetta verður okkur öllum svo erfitt því þú varst svo einstaklega flottur karakter, reyndir alltaf að vera jákvæður og finna jákvæðu punktana, sama hversu erfiðar niðurstöðurnar voru. Hjá börnunum okkar er skarðið stórt, og verður það erfitt að fylla. Þú varst svo duglegur að leiðbeina þeim ef þau vantaði aðstoð, þó það væri bara smá spjall. Ég mun reyna allt hvað ég get en það kemur seint í þinn stað.

Elsku hjartans vinurinn, við munum halda áfram að lifa eftir þínu lífsmottói „ég get, ætla og skal “, engin orð fá jafn vel lýst lífi þínu og persónuleika. Ég get seint þakkað að fullu þá heppni að hafa orðið á vegi þínum fyrir 36 árum síðan, að hafa fengið að deila þessum hluta ævinnar með þér og eignast fjölskylduna okkar saman. Takk fyrir öll hlátrasköllin og gleðina sem fyllti líf okkar saman, þér mun ég aldrei gleyma, elsku hjartað mitt. Guð gefi að þér líði vel þar sem þú ert núna, laus við allar þjáningar og verki. Elsku Gummi minn, þú ert og verður alltaf ástin í mínu lífi.

Þín

Anna Guðrún.