Eldsvoðinn Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í að rannsaka eldsupptökin í gærmorgun.
Eldsvoðinn Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í að rannsaka eldsupptökin í gærmorgun. — Morgunblaðið/Eggert
Stefán Gunnar Sveinsson Sólrún Lilja Ragnarsdóttir Freyr Bjarnason Hallur Már Hallsson Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í gærkvöldi að karl og kona, sem handtekin voru í tengslum við eldsvoðann á Kirkjuvegi 18 á Selfossi, myndu sæta gæsluvarðhaldi í...

Stefán Gunnar Sveinsson

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Freyr Bjarnason

Hallur Már Hallsson

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í gærkvöldi að karl og kona, sem handtekin voru í tengslum við eldsvoðann á Kirkjuvegi 18 á Selfossi, myndu sæta gæsluvarðhaldi í eina viku að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi vegna fyrirliggjandi rannsóknarhagsmuna í málinu. Maðurinn er húsráðandi þar sem brann og er fæddur árið 1965, en konan var gestkomandi og fædd árið 1973.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi voru þau bæði yfirheyrð í gær en ekki hafði verið unnt að yfirheyra þau í fyrrakvöld vegna ástands þeirra.

Taldi lögreglan að rökstuddur grunur væri um að eldsupptök hefðu verið af mannavöldum. Tvennt fórst í eldsvoðanum og munu þau hafa verið kunningjar fólksins sem var handtekið.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í gær að verið væri að rannsaka hvort eldurinn hefði kviknað af ásetningi eða vegna gáleysis. Vildi Oddur hins vegar ekki gefa neitt upp um það hvernig rannsókn málsins hefði miðað áfram eða hvort yfirheyrslur yfir fólkinu hefðu varpað ljósi á atburðarásina. „Við ætlum að halda spilunum þétt að okkur með þær upplýsingar og almennt einstök atriði rannsóknarinnar,“ sagði Oddur.

Slökkvistarfi í húsinu lauk um áttaleytið í gærmorgun en glæður höfðu blossað upp alla nóttina. Fékk lögreglan í kjölfarið húsið afhent en slökkviliðið hafði áfram viðbúnað við húsið þar sem enn rauk úr því. Þurfti einnig að tryggja að aðstæður væru öruggar á efri hæð hússins, en lík fólksins sem fórst í brunanum voru þar.

Mikið asbest í húsinu

Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu veitti aðstoð sína við rannsókn málsins ásamt sérfræðingum Mannvirkjastofnunar, en rannsókn á vettvangi lauk um þrjúleytið. Var húsið í kjölfarið afhent tryggingafélagi til vinnslu. Sagði Oddur að það myndi taka nokkurn tíma að vinna úr þeim gögnum sem aflað var í gær.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, sagði í samtali við mbl.is í gær að það yrði flókið mál að rífa húsið vegna þess hversu mikið asbest væri í því. Mun því þurfa heimild frá bæði Heilbrigðis- og Vinnueftirlitinu áður en það verður rifið.

Húsið var reist einhvern tímann á fimmta áratugnum og voru asbest-plötur innan járnklæðningarinnar. Asbest er talið lífshættulegt efni og er ekki lengur notað í húsbyggingum. Sagði Pétur að finna þyrfti sérmenntaða menn til þess að meðhöndla efnið. „Við höfum ekki lent í þessu síðan ég byrjaði í þessu starfi að það séu kallaðir til sérmenn vegna þessa, þannig að þetta er nýtt ferli fyrir mér,“ sagði Pétur.

Sagði hann jafnframt að slökkvistarfið hefði reynt nokkuð á menn, og að útköll á borð við þetta væru mjög erfið fyrir viðbragðsaðila. Svonefndur viðrunarfundur var haldinn seinnipartinn í gær fyrir slökkviliðsmenn þar sem farið var yfir starf slökkviliðsins vegna eldsvoðans og gátu menn þar greint frá sinni hlið málsins og komið með spurningar. „Þetta miðar að því að allir séu upplýstir og geti þá gengið sáttir frá verkinu. Ef eitthvað meira er að hjá mönnum og þeir finna eitthvað að í sinni sál þá komum við því að sjálfsögðu í farveg til fagaðila.“

Djúp áhrif á samfélagið

„Þetta er skelfilegt og hörmulegir atburðir,“ sagði Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Selfossi, í samtali við mbl.is í gær. Sagði hann málið snerta beint marga af starfsmönnum bæjarins og aðra bæjarbúa. Bætti hann við að mál þar sem fjórar manneskjur kæmu við sögu og tvær þeirra hefðu farist með þessum hörmulega hætti hefði djúp áhrif á samfélagið. Fólk væri því slegið vegna atburðanna.

Kjartan Björnsson rakari sagði í samtali við mbl.is að hann hefði lagt leið sína að húsinu sem brann en hann ólst upp beint á móti því. Sagði hann húsráðanda vera æskuvin sinn og gamlan bekkjarbróður og hugðist Kjartan því athuga með líðan hans. Náði Kjartan þó einungis að ræða örstutt við húsráðanda áður en lögreglan kom og handtók hann.

Sagði Kjartan að það hefði verið erfitt að koma að húsinu, sem eitt sinn gekk undir heitinu Sólheimar, í ljósum logum. Bætti hann við að saga þeirra sem þarna ættu hlut að máli væri bæði flókin og sorgleg.