Tillögur Guðmundur Ingi Guðbrandsson við hlið kassa sem sýnir meðalplastmagn fjögurra manna fjölskyldu sem er um 13 kg í hverjum mánuði.
Tillögur Guðmundur Ingi Guðbrandsson við hlið kassa sem sýnir meðalplastmagn fjögurra manna fjölskyldu sem er um 13 kg í hverjum mánuði. — Morgunblaðið/Hari
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Í drögum að aðgerðaáætlun í plastmálefnum, sem eru á borði umhverfis- og auðlindaráðherra, er lagt til að burðarplastpokar í verslunum verði bannaðir frá og með 1.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Í drögum að aðgerðaáætlun í plastmálefnum, sem eru á borði umhverfis- og auðlindaráðherra, er lagt til að burðarplastpokar í verslunum verði bannaðir frá og með 1. janúar 2021, einnota plast verði bannað frá og með 1. janúar 2020, að úrvinnslugjald verði lagt á allt plast og skilagjald á drykkjavöruumbúðir úr plasti, auk annarra tillagna. Drögin voru afhent í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í gær en þau eru unnin af starfshópi sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 29. júní.

„Við erum að stíga mikilvægt skref í þessum málaflokki. Við erum í takt við það sem er að gerast í heiminum og það er ánægjulegt að sjá þessar tillögur koma fram,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Úrvinnslugjald er notað til að greiða fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöðvum, en Guðmundur segir álagninguna skapa góðan hvata: „Með þessum aðgerðum er verið að draga úr eftirspurn eftir þessum gerðum af plasti, sem eru einnota, og það skiptir miklu máli fyrir markaðinn.“

Lagt er til að notkun burðarplastpoka verði minnkuð í þremur þrepum, fram að banninu. Þeim er lýst þannig að hinn 1. janúar 2019 verði engir plastpokar afhentir án endurgjalds. Hinn 1. janúar 2020 yrði skattur lagður á burðarplastpoka og loks myndu burðarplastpokar vera bannaðir 1. janúar 2021.

Bann ESB innleitt á Íslandi

Fyrirhugað bann við plasti er liður í tilskipun ESB sem kom út í maí síðastliðinn en lagt er til að innleiða hana að fullu á Íslandi hinn 1. janúar 2020. Hún kveður á um að plasthnífapör, plastdiskar og annað einnota plast verði bannað, auk aðferða til að takast á við þær tíu plastvörur sem oftast finnast á evrópskri strönd eða í hafi ásamt aðgerðum sem sporna við mengun vegna veiðarfæra. Í henni er einnig lagt til að aðildarríkjum verði skylt að draga úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr plasti, merkja skuli dömubindi, blautþurrkur og blöðrur til að upplýsa að varan sé úr plasti og hafi neikvæð umhverfisáhrif.

Í tillögu starfshópsins er lagt til að hafist verði handa eftir að tillagan hefur verið samþykkt af hálfu Evrópusambandsins, sem áætlað er að verði árið 2019.

Þá er lagt til að sveitarfélög og rekstraraðilar verði skyldugir til að flokka úrgang, a.m.k. lífrænan úrgang, pappír, plast, málma og gler og koma til endurnýtingar, en lagt er til að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp þess efnis.