Tillaga Minjastofnunar um friðlýsingu Víkurgarðs í miðborg Reykjavíkur er enn ekki komin á borð Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, samkvæmt upplýsingum Kristrúnar Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Tillaga Minjastofnunar um friðlýsingu Víkurgarðs í miðborg Reykjavíkur er enn ekki komin á borð Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, samkvæmt upplýsingum Kristrúnar Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins. Það er ráðherra sem tekur ákvörðun um það hvort af friðlýsingu verður.

Það var í byrjun október sem Minjastofnun ákvað að hefja undirbúning tillögu til ráðherra um friðlýsingu hins forna Víkurkirkjugarðs við Aðalstræti í Reykjavík. Miðast tillagan við þann hluta kirkjugarðsins sem er innan svæðis sem nú er nefnt Víkurgarður eða Fógetagarður, en tekur ekki til þess hluta garðsins sem grafinn var upp við fornleifarannsókn á Landssímareitnum 2016 til 2017. Víkurgarður nýtur þegar verndar samkvæmt lögum um menningarminjar, en friðlýsing er víðtækari aðgerð.

Í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga var bréf um áform Minjastofnunar sent til allra hagsmunaaðila. Var þeim veittur frestur til 15. október til að bregðast við tillögunni, Reykjavíkurborg óskaði eftir framlengingu á fresti og var hann veittur til 22. október. Hefur Minjastofnun unnið að lokagerð tillögunnar að undanförnu.

gudmundur@mbl.is