Víkverji er næmur og finnur vel fyrir því þegar veturinn með sinn kulda tekur í rólegheitunum yfir haustið. Víkverji kvíðir kuldanum og hálkunni og hefur ekki enn tekist að venjast komu vetrarins.

Víkverji er næmur og finnur vel fyrir því þegar veturinn með sinn kulda tekur í rólegheitunum yfir haustið. Víkverji kvíðir kuldanum og hálkunni og hefur ekki enn tekist að venjast komu vetrarins.

Í gær hófst nóvember og íbúar sunnan heiða þurfa ekki að kvarta yfir veðrinu það sem af er vetri. Snjórinn hefur lítið látið sjá sig en frostið hefur látið á sér kræla. Þegar Víkverji kvíðir vetrinum fer hann stundum í Pollýönnuleik þar sem gleði og jákvætt hugarfar er lykillinn að því að vinna á erfileikum lífsins. Víkverji sem er fróðleiksfús komst að því í greinasafni Morgunblaðsins að sagan um Pollýönnu er 105 ára gömul og þar með jafngömul Morgunblaðinu.

Söguna um Pollýönnu samdi bandaríski rithöfundurinn Eleanor H. Porter, en Pollýanna kom fyrst út á íslensku árið 1946 í þýðingu Freysteins Gunnarssonar, skólastjóra Kennaraskólans. Pollýanna, sagan af stelpunni sem kom öllum í gott skap, er ein vinsælasta barnabók allra tíma og hefur verið talin til klassískra barnabókmennta. Sagan um Pollýönnu hefur verið endurútgefin að minnsta kosti sex sinnum á Íslandi eftir því sem Víkverji kemst næst.

En virkar Pollýönnuleikurinn og á hann alls staðar við? Það er spurning sem Víkverji veltir fyrir sér en á ekki einhlítt svar við. Jákvæð sýn á lífið og bjartsýni getur aldrei skaðað. En í bland við gleði og bjartsýni þarf að vera raunsæi. Einhvern veginn er Víkverji viss um að fæstir séu þannig úr garði gerðir að þeir geti alla daga, alltaf tekið öllu því sem að höndum ber með gleði og brosi.

Víkverji telur sig vera góðum kostum gæddan og er bjartsýnn að eðlisfari. Pollýönnuleikurinn virkar ekki alltaf hjá Víkverja og mest reynir á hann þegar hitamælirinn sýnir lækkandi hitatölur og kuldinn smýgur inn að beini.