— Ljósmyndir/Karl R. Lillendahl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágústa Eva Erlendsdóttir er íslensk kvenhetja. Hún dvelur í Noregi þessa dagana ein með börnin sín tvö en hún leikur þriðja stærsta hlutverkið í nýrri HBO-seríu sem sýnd verður um allan heim.

Ágústa Eva Erlendsdóttir er íslensk kvenhetja. Hún dvelur í Noregi þessa dagana ein með börnin sín tvö en hún leikur þriðja stærsta hlutverkið í nýrri HBO-seríu sem sýnd verður um allan heim. Í viðtali við Mörtu Maríu Jónasdóttur ræðir hún um þetta stóra tækifæri og hvernig hún þurfti að læra allt upp á nýtt eftir slys sem hún varð fyrir. Marta María | mm@mbl.is

Ágústa Eva er ólíkindatól. Hún veður í allt og lætur fátt stoppa sig, er mjúk og alls ekki átakafælin eins og svo margar konur. Nú er hún búin að landa þriðja stærsta hlutverkinu í nýrri HBO-seríu sem sýnd verður á öllum rásum stöðvarinnar um heim allan. Þetta er í fyrsta skipti sem HBO framleiðir sjónvarpsþátt á Norðurlandatungumáli. Þessi þáttaröð heitir Beforeigners en 300 leikkonur í Skandinavíu fóru í prufur fyrir hlutverkið en Ágústa Eva landaði því. Það var tvennt sem gerði það að verkum að hún fékk hlutverkið, fyrir utan leikhæfileika, hún kann norsku eftir að hafa búið í Noregi þegar hún var 11 ára og svo er hún slagsmálahundur eftir að hafa æft bardagaíþróttir í mörg ár. Hún segir að Noregur fari vel með þau.

„HBO skaffar mér íbúð og bíl og það fer vel um okkur. Börnin eru mestmegnis hérna í Noregi hjá mér og ég er með aðstoð sem passar þau meðan ég er í tökum. Svo eru margir Íslendingar sem búa hérna og við höfum bara svolítið dottið inn í þetta samfélag, sem er gott,“ segir hún.

Ágústa Eva hefur gert margt á sínum ferli. Hún komst í heimspressuna sem Sylvía Nótt, hefur leikið í bíómyndum, sýnt 200 sýningar fyrir fullu Borgarleikhúsi sem Lína Langsokkur og gefið út plötur svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er langstærsta hlutverk sem ég hef fengið á mínum ferli. Eftir langt og strangt prufuferli fékk ég hlutverkið og hófust tökur nú í haust. Ég verð því meira og minna í Noregi fram í byrjun næsta árs en svo munum við líka taka upp í Litháen,“ segir Ágústa Eva.

Í þáttunum er töluð norska eða einhvers konar afbrigði af fornnorsku sem líkist íslensku. Ágústa Eva segir að serían sé vísindaskáldsaga sem hefst þegar fólk frá víkingatímanum kemur upp úr sjónum og byrjar líf með nútímafólki.

„Þessi saga gerist í Noregi og er ádeila á flóttamannavandann og hvernig við eigum að taka tillit hvert til annars, vera ekki að spá í hver á hvaða land, vera með fordóma hvert í annars garð og þar fram eftir götunum. Við fylgjumst með því hvernig samfélagið tekur á móti þessu,“ segir Ágústa Eva.

Þegar Ágústa Eva er spurð að því hvernig dagarnir séu hjá henni segir hún að oftast séu þetta 10 tíma tökudagar. Tökur fara fram í Osló og á svæðinu þar í kring.

„Ég er svo heppin að fá að leika ótrúlega skemmtilegan karakter. Hún er mjög klikkuð og það eru mjög fyndnar uppákomur sem gerast. Ég fæ að leika mér mjög mikið og þetta gefur mér mikið. Handrit þáttanna er rosalega vel skrifað og ég skemmti mér konunglega að leika bara og þurfa ekki að pæla í því hvort ég sé í vitlausum búningi, of mikið eða of lítið máluð og að vinna eftir of lélegu handriti. Það eru miklir peningar í þessu og fólk hefur meiri tíma. Það er fært fólk á öllum póstum sem er gaman að kynnast,“ segir hún.

Ferlið að þessu hlutverki var ekki alveg beinn og breiður vegur. Hún frétti af þessum prufum og var ekkert æst í að fara í þær til að byrja með.

„Ég átti ekki von á því að fá þetta hlutverk. Ég var með pínulítið barn þegar mér var boðið í prufur í byrjun ársins og kannski ekki alveg stemmd í þetta. Svo var mér boðið aftur í prufur í vor og þá hafði ég betri tíma og yfirsýn og sé ekki eftir því. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta er stórt,“ segir hún og bætir við:

„Þegar þú baðst mig um að koma í viðtal þá sá ég hvað þetta er rosalega stórt. Það er svo margt sem fer framhjá manni,“ segir Ágústa Eva og er að vísa í frétt sem birtist á mbl.is síðsumars um að hún hefði fengið hlutverkið. Á þeim tíma mátti hún ekki tjá sig um málið en lofaði viðtali um leið og HBO gæfi grænt ljós.

Leiddist hræðilega í Noregi

Svo berst talið að norskukunnáttu Ágústu Evu og það er auðvitað saga á bak við hana.

„Ég bjó í Noregi þegar ég var 11 ára eða í hálft ár í smábæ í Noregi þegar mamma mín var í námi. Hún var að læra textíl og ég þurfti að druslast með. Ég var ekki að fíla þetta og grenjaði mig heim. Þegar maður er 11 ára finnst manni maður vera rifinn upp með rótum. Mér datt ekki í hug að ég myndi koma aftur til Noregs og það kom mér á óvart hvað er næs að vera í Osló. Þetta er mjög samnorrænt verkefni, tveir Danir, fjórir Íslendingar og þar fram eftir götunum,“ segir hún og minnist á að Ásta Hafþórsdóttir gervahönnuður sé að vinna við þættina og líka Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari.

„Ásta er orðin fremst í flokki hér í Noregi og það var verið að orða hana við Óskarinn,“ segir Ágústa Eva.

Ein á báti

Ágústa Eva flutti ein til Noregs með börnin sín tvö því hún og kærasti hennar, Aron Pálmarsson handboltastjarna, fóru sitt í hvora áttina í vor. Þegar hún er ekki í tökum segist hún lifa rólegu lífi.

„Ég er bara voðalega mikið að sinna börnunum mínum. Sonur minn er í heimaskóla og það þarf auðvitað að læra á hverjum degi. Svo förum við mikið í menningarferðir á söfn og svona. Það er svo mikið af sígaunum hérna og hann er því að læra margt um ólíka menningarheima. Svo er ég í alls konar búningamátunum og hárgreiðslum og læra handritin og svona. Ég legg mikla áherslu á krakkana, sinni þeirra þörfum fyrst og svo læri ég textann á nóttunni ef svo ber undir.“

Fullsköpuð í hlutverkið

Oft heyrast sögur af því að leikkonur þurfi að breyta útliti sínu, lita hár, mjókka eða fitna fyrir hlutverk. Ágústa Eva segist ekki hafa þurft að gera neitt.

„Ég þurfti ekki að gera neitt. Mér var sendur texti og ég las hann inn á spólu og þeir flugu með mig út í prufu. Og leikstjórinn sagði að hann hefði spottað það strax og við hittumst fyrst að þarna væri hún komin fullsköpuð. Fyrst var hárið reyndar litað mjög rautt og svo var hugmynd um að mitt hlutverk ætti að vera með lengra hár og freknur en svo endaði hún nú bara svipuð og ég er,“ segir hún.

Undirbúningurinn fyrir hlutverkið hefur aðallega falist í fræðslu, tungumálavernd um gamla norsku og svo þurfti hún að læra hvernig víkingar töluðu. „Þetta hljómar svolítið eins og sambland af íslensku, færeysku og norsku. Þetta var rosalega erfitt fyrir leikkonuna sem er í aðalhlutverkinu því hún talar hvorki norsku né íslensku. Ég hef fengið hjálp á setti ef það vantar einhvern texta. Ég er búin að læra þessar reglur og það hjálpar mér,“ segir hún og heldur áfram:

„Í þessu hlutverki minni ég svolítið á mig þegar ég var 13 ára. Þá var ég að brjótast inn hér og þar, ekkert alvarlegt samt en ég var villingur sem var á móti kefinu. Það er því ýmislegt líkt með mér 13 ára og hlutverki mínu í þáttunum. Ég hef þennan bardagabakgrunn og er líka þessi sem vill alltaf vera að slást, „pikka fæt“. Ein á móti öllum,“ segir hún og hlær.

Þú hefur sem sagt alltaf verið átakasækin?

„Já, ég þarf ekki að vera í náðinni hjá fólki. Ég er ekki hrædd við að segja það sem mér finnst vera rétt. Ef ég trúi á eitthvað þá berst ég fyrir því. Þetta á við allt í lífinu. Mér var kennt að það mætti ekki skilja útundan. Það var útgangspunktur í uppeldi föður míns. En það þýðir ekki að maður eigi að vera meðvirkur eða láta vaða yfir sig eða aðra.“

Í mál við Löður

Ágústa Eva er ekki hrædd við stríð og nú hefur hún höfðað mál gegn bílaþvottastöðinni Löðri og vill bætur eftir slys sem hún varð fyrir á þvottastöðinni árið 2015.

„Þetta atvik hefur haft alvarleg og víðtæk áhrif. Ég ber það ekki utan á mér og er dugleg að finna leiðir til þess að lifa með því sem gerðist, bæði líkamlega og andlega. Það munaði sekúndum að eitthvað hefði sprungið innan í mér. Þeir voru með ólöglega hurð sem var dauðagildra. Það var tímaspursmál hvenær einhver myndi lenda í þessu,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er sjálfvirk bílaþvottastöð og mannlaus og ekki með neinum öryggisbúnaði. Hún er opin í báða enda þannig að ég keyri inn í básinn og ýti á takka og þá fer hurð að ganga niður og sé að bíllinn minn myndi lenda undir hurðinni. Ég leita að öryggisskynjara og komst að því að það var enginn. Ég prófa að ýta á móti hurðinni og enda með hana í fanginu og reyni að þrýsta henni upp en hún er ekkert að fara að stoppa og ég klemmist á milli,“ segir hún en á ögurstundu kemur maður henni til bjargar. Í framhaldinu fer að blæða úr henni og öll innyfli bólgna upp og segir Ágústa Eva að litlu hefði munað að þau hefðu sprungið.

„Í kjölfarið fæ ég mjög alvarlega áfallastreituröskun sem er mikil fötlun og gerir lífið fimm sinnum erfiðara. Ég mun aldrei aftur syngja í söngleik því það reynir svo á allan líkamann. Líkaminn er búinn að finna nýjar leiðir til að geta sungið, en ég þurfti að læra það upp á nýtt. Þetta er búið að hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Ég gat ekki unnið í ár á eftir og hef þurft að segja nei við mörgum verkefnum og því hefur þetta valdið mér miklum skaða. Viðmótið frá Löðri var sjokkerandi. Þeir vildu bjóða mér ókeypis bílaþvott í þrjá mánuði. Ég var næstum því búin að tapa lífinu þarna en þeim virtist vera alveg saman.“

Þegar Ágústa Eva er spurð að því hvað drífi hana áfram nefnir hún börnin sín og lífsbaráttuna.

„Bara þetta að vinna fyrir heimilinu, passa að allir hafi húsaskjól og föt og eitthvað að borða. Og eiga smá pening til að geta gert eitthvað skemmtilegt,“ segir hún.

Ágústa Eva fór ekki í leiklistarskóla og þegar ég spyr hana hvort það hafi verið lengri leið inn í þennan heim segir hún svo ekki vera.

„Ég geri voða mikið bara það sem mér finnst skemmtilegt. Það að leika er ekki alveg í fyrsta sæti, að skapa og búa eitthvað til er í fyrsta sæti. Ég byrjaði á því mjög snemma og það hefur komið mér þangað sem ég er í dag. Útgangspunkturinn minn er ekki að vera leikari á leiksviði. Ekki það að ég hafi ekki ástríðu fyrir því að leika. Mér finnst það vera erfiðari leið þegar maður stjórnar því ekki sjálfur. Það er frústrerandi að vera með brennandi ástríðu fyrir því að skapa og vera svo alltaf að bíða eftir að fá rétta hlutverkið. Fólk sér hlutina á ólíkan hátt. Þegar ég hef verið í leikhúsunum þá hef ég verið brynjuð fyrir þessu viðhorfi.

Þegar ég lék Línu Langsokk sló sýningin öll sýningarmet. Þá var ég ennþá að heyra bergmál af því hvers vegna væri verið að ráða amatöra í leikhús og þá var átt við mig því ég fór ekki í Leiklistarskólann.

Svona særir mig ekki neitt. Ég er viss um að fólk finni leiðir til að vera sjálfstæðara og vera minna hrætt við álit annarra. Ef maður er staddur á góðum stað þá þarf maður ekki að hnýta í aðra. Fólk þarf að læra að standa meira með sjálfu sér.“

Talið berst að frægðardraumum og þegar ég spyr hana hvert HBO-serían muni leiða hana segist hún lítið spá í það.

„Ég hef aldrei verið með neina frægðardrauma, það er alveg skýrt. Það hefur alltaf verið pönkari í mér sem finnst gaman að sprengja upp hversdagslegar aðstæður. Segja eitthvað og gera eitthvað sem aðrir gera ekki. Ég er meira að gera þetta fyrir kikkið frá degi til dags. Um leið og hlutirnir gefa mér ekki eitthvað þá sný mér að öðru,“ segir hún og rifjar upp þegar hún vann í lúgusjoppu.

„Ég vann í Aktu taktu þegar ég var 18 ára og gat oft sprengt upp aðstæður þar í lúgunni. Ég gat leikið allskonar karaktera því þetta eru bara mannleg samskipti. Ég setti upp heilu leikþættina þarna í lúgunni. Karakterflóra á svona vinnustöðum er frábær og ég hef alltaf sótt í fólk sem er ekki eins og annað fólk. Það bergmálar líka í gegnum vinnuna mína,“ segir hún.

Þegar tökum lýkur á HBO-seríunni heldur Ágústa Eva heim á leið til að vinna í tónlistinni og sjá hvert lífið leiðir hana. Kannski til Hollywood, hver veit.