Því miður virðist enginn áhugi vera fyrir byggingu nýrrar og fullkomnari íþróttahallar í Reykjavík. Íþróttahallar sem svarar kröfum nútímans til keppni á alþjóðavísu.
Því miður virðist enginn áhugi vera fyrir byggingu nýrrar og fullkomnari íþróttahallar í Reykjavík. Íþróttahallar sem svarar kröfum nútímans til keppni á alþjóðavísu.

Eins og margoft hefur komið fram hafa Handknattleikssambandið og Körfuknattleikssambandið fengið undanþágu ofan á undanþágu hjá alþjóðasérsamböndum til að leika kappleiki landsliðanna í Laugardalshöll, sem er elsta þjóðaríþróttahöll í Evrópu sem er í notkun til alþjóðaíþróttaviðburða.

Hver veit hvenær undanþágurnar verða dregnar til baka þar sem ekkert bólar á úrbótum. Heldur hefur verið hert á reglunum með árunum og ljóst að undanþágur verða ekki endlaust veittar.

Ríkur áhugi er innan Fimleiksambands Íslands að sækjast eftir að halda Evrópumótið í hópfimleikum á næstu árum. Sambandið var gestgjafi mótsins fyrir fjórum árum. Þrátt fyrir mikinn kostnað við að útbúa fimleikasal í frjálsíþróttahluta Laugardalshallarinnar, flytja inn og koma fyrir áhorfendaaðstöðu fyrir nokkur þúsund áhorfendur var góður hagnaður af mótshaldinu. Hann renndi m.a. styrkari stoðum undir rekstur sambandsins.

Vegna aðstöðuleysis hika forráðamenn Fimleikasambandsins við að sækja um mótið að nýju. Sú aðstaða sem komið var upp á mótinu fyrir fjórum árum var m.a. háð undanþágum frá öryggisreglum. Ekki er víst að undanþága fáist aftur. Þess utan var ekki rými fyrir alla þá erlendu gesti sem vildu fylgjast með mótinu fyrir fjórum árum. Enn síður er sú aðstaða fyrir hendi í dag og ekkert bendir til að hún verði það heldur innan nokkurra ára.