Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson
Eftir Kristin H. Gunnarsson: "Staðreyndin er að það eru andstæðingar Hvalárvirkjunar sem ganga gegn leikreglum í umhverfismálum og svífast einskis."

Áhugamenn um Árneshrepp, sem kalla sig svo, eiga það helst sammerkt að standa gegn framförum í hreppnum, vilja ekki vera þar, en eru háværir í fjölmiðlum og keppast við að andmæla þeim tilburðum sem uppi eru til þess að styrkja búsetu og mannlíf, ekki bara í Árneshreppi heldur á Vestfjörðum öllum.

Hvalárvirkjun virðist vera nýjasta skotmark svörtu umhverfisverndarinnar, sem berst fyrir óbreyttu óviðunandi ástandi á stórum landsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Móðurskip þessarar hreyfingar er Landvernd, sem hefur verið lyft til pólitískra áhrifa í núverandi ríkisstjórn með umhverfisráðherra úr þeirra röðum. Samtök, sem undanfarinn áratug hafa framfylgt af mikilli grimmd þeirri stefnu að kæra allar orkuframkvæmdir með hörmulegum afleiðingum og gríðarlegum kostnaði fyrir land og þjóð, hafa verið verðlaunuð með því að sá sem helst ber ábyrgð á öfgunum, er nú ráðherrann og fyrirsvarsmaður málaflokksins. Það eru nýmæli í íslenskum stjórnmálum að nú er til flokkur sem leggur sig allan fram um að gera þeim erfitt fyrir sem veikast standa á landsbyggðinni að halda velli í samkeppni við höfuðborgarsvæðið. Skrif Viðars Hreinssonar í Morgunblaðinu á laugardaginn veita innsýn í hugarheim sem er til og verið er að skírskota til en er byggður á töluverðri vanþekkingu.

Leikreglur beygðar og brotnar

Áform um Hvalárvirkjun hafa farið í gegnum lögbundið ferli, tvisvar sinnum, sem tók mörg ár og allir sem vildu gátu komið að athugasemdum og það oftar en einu sinni. Tvisvar hefur Alþingi samþykkt tillögu um að virkjunin verði í nýtingarflokki. Aðeins einn aðili, Landvernd, lagðist gegn en enginn annar. Enginn. Ekki Náttúrufræðistofnun Íslands. Ekki Viðar Hreinsson. Ekki Fréttablaðið. Ekki Vinstri græn. Þessir aðilar koma eftir á og vilja fá að breyta leikreglunum þegar búið er að fara í gegnum langt og strangt ferli með jákvæðri niðurstöðu. Tilraunir til þess að yfirtaka Árneshrepp með flutningi fólks á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor er einsdæmi; ósvífin aðgerð þar sem reynt var að koma í veg fyrir að meirihlutavilji heimamanna réði. Viðar Hreinsson kallar það skopleik að heimamenn fengu að ráða, en fyrir flesta aðra er skopleikurinn eða öllu heldur harmleikurinn athæfi hinna sem reyndu að hafa rangt við í leikreglum lýðræðisins. Listamenn búsettir í Berlín reyndu í alvöru að fá kosningarétt í Árneshreppi. Hvernig má það vera að þessi alvarlegasta atlaga að lýðræðislegu fyrirkomulagi, almennum kosningum, sem orðið hefur, skuli ekki vera rannsökuð og dregið fram hverjir bera ábyrgð og þeir sóttir til saka? Það er óumdeilt sakamál að hafa lýðræðið að leiksoppi. Ef menn komast upp með að brjóta leikreglurnar á bak aftur bara vegna þess að niðurstaðan varð þeim ekki að skapi þá er illa komið fyrir stjórnskipaninni.

Náttúrurfræðistofnun eftir á

Framganga Náttúrufræðistofnunar Íslands er rannsóknarefni. Stofnunin gerði engar athugasemdir né sendi inn umsögn um Hvalárvirkjun þegar ferlið var í gangi. En kemur nú skyndilega fram með tillögu til umhverfisráðherra um friðun svæðis þar sem tvær virkjanir eru áformaðar, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun með vísun til þess að vernda þurfi jarðmyndanir. Þrátt fyrir að beðið hafi verið um rökstuðning fyrir tillögunni þá hefur hann ekki komið að öðru leyti en að vísað er í jarðfræðiritgerðir. En ekki fæst uppgefið hvað í þessum ritgerðum styður við tillögur stofnunarinnar. Hér fer fram opinber stofnun beinlínis í því skyni að spilla fyrir, eftir á.

Viðar með viðsnúning

Skrif Viðars Hreinssonar eru gegnsæ og feta í fótspor sem áður hafa verið stigin í þessu máli. Hann hefur það hlutverk að þyrla upp ryki til þess að dylja slóðina. Staðreyndin er að það eru andstæðingar Hvalárvirkjunar sem ganga gegn leikreglum í umhverfismálum og svífast einskis og þessir andstæðingar koma líka innan úr stjórnkerfinu þar sem enginn virðist hafa taumhald á framgöngu einstakra forstöðumanna ríkisstofnana.

Arðsemin ræður

Það verður arðsemin sem ræður því hvort Hvalárvirkjun verður reist. Svo virðist að þrátt fyrir fremur háan kostnað sé þessi kostur að verða arðbær vegna hækkandi raforkuverðs. Það skiptir ekki máli hvar kaupandinn er, ekki frekar en að kaupendur raforku af Þjórsársvæðinu eru á höfuðborgarsvæðinu og í Hvalfirði. Það mun hins vegar vera þjóðhagslega og öryggislega mikilvægt að reisa virkjanir utan helsta jarðskjálftasvæðis landsins og þá þarf einmitt að hafa traustar flutningsleiðir milli landsvæða og innan þeirra.

Höfundur er Vestfirðingur og ritstjóri. kristinn@kristinn.is