Birnir Snær Ingason
Birnir Snær Ingason
Íslandsmeistarar Vals hafa fest kaup á kantmanninum Birni Snæ Ingasyni frá Fjölni. Birnir er 22 ára gamall og uppalinn Fjölnismaður en Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni í fótbolta í haust.

Íslandsmeistarar Vals hafa fest kaup á kantmanninum Birni Snæ Ingasyni frá Fjölni. Birnir er 22 ára gamall og uppalinn Fjölnismaður en Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni í fótbolta í haust. Hann hefur skorað 13 mörk í 72 leikjum fyrir Fjölni og á að baki þrjá leiki fyrir U21-landslið Íslands.

Óttar Bjarni Guðmundsson hefur einnig söðlað um og er þessi 28 ára gamli miðvörður farinn frá Stjörnunni til ÍA sem í haust vann sér sæti í Pepsi-deildinni. Óttar er uppalinn í Leikni Reykjavík en hefur leikið með Stjörnunni frá árinu 2016. Hann lék alls 17 deildarleiki með Stjörnunni.

KA að landa Viktori?

Framherjinn Viktor Jónsson gæti svo verið á leiðinni til Akureyrar en Þróttur R. hefur samþykkt tilboð KA í kappann samkvæmt frétt Fótbolta.net í gær. Viktor skoraði 22 mörk í 21 leik í Inkasso-deildinni í sumar og hefur alls skorað 59 mörk í 84 leikjum í næstefstu deild, en fimm mörk í 43 leikjum í Pepsi-deildinni með Þrótti og Víkingi R.