Anna Kolbrún Árnadóttir
Anna Kolbrún Árnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og Sigurð Pál Jónsson: "SÁÁ hefur ekki getað sinnt forvarnafræðslu sinni sem skyldi þrátt fyrir að búa yfir allri þeirri sérþekkingu sem á þarf að halda."

Það er varla hægt að minnast á áfengi og vímuefni án þess að huga að geðheilbrigðismálum. Það getur verið erfitt að ákveða og það er spurning hvort hægt er að ákveða hvort komi á undan, geðræn veikindi eða neysla vímuefna. Það skiptir því máli að við höldum áfram að huga að forvörnum á öllum sviðum mannlífs. Forvarnir kosta lítið í samanburði við þann ávinning sem þær skila. Okkur ber því að huga sérstaklega að frjálsum félagasamtökum sem beita sér sérstaklega í þessum málaflokki. Um 600 manns eru á biðlista á Vogi og það eru fyrst og fremst ungmenni og ungt fólk sem ekki fær þá hjálp sem það þarf nauðsynlega á að halda. Oft eru geðræn vandamál svo sem geðrof fylgifiskur neyslu vímuefna sérstaklega hjá ungu fólki og einstaklingur sem verður háður vímuefnum á unglingsárum getur orðið fyrir óbætanlegu, félagslegu og andlegu tjóni. SÁÁ hefur ekki getað sinnt forvarnafræðslu sinni sem skyldi þrátt fyrir að búa yfir allri þeirri sérþekkingu sem á þarf að halda.

Forvarnir eru lykilatriði til bættrar lýðheilsu og um leið bætts reksturs í heilbrigðiskerfinu. Það á að huga að forvörnum strax í bernsku og forvarnir á að hugsa sem samfellu frá vöggu til grafar. Forvarnir eru hugtak sem spannar vítt svið aðgerða sem beinast að samfélaginu öllu. Þær miða að því að efla heilbrigði, fyrirbyggja sjúkdóma og hindra sjúkdómsþróun sem og fylgikvilla sjúkdóma sem þegar eru til staðar. Oftast er talað um forvarnir í tengslum við að stemma stigu við neyslu áfengis og fíkniefna. Þá er mikilvægt að grípa inn um leið og þörfin kallar enda hagur samfélagsins alls. Talið er að stór hluti þjóðarinnar glími við áfengis- og vímuefnavanda, jafnvel er því haldið fram að hlutfallið sé allt að 20%.

Fjölskyldur skipta sköpum þegar um forvarnir er að ræða, því er stundum haldið fram að ekki sé auðvelt að vera barn eða unglingur og aukinn tími fjölskyldunnar saman er því afar mikilvægur. Gera verður allt sem hægt er til að hamla þeirri þróun sem nú er, neysla unglinga á ávanabindandi efnum hefur aldrei áður haft eins alvarlegar afleiðingar. Aðilar innan meðferðargeirans halda því fram að það eina sem dugi gegn neyslu áfengis og vímuefna sé forvarnarfræðsla, takmarkað framboð og takmarkað aðgengi. Við stöndum frammi fyrir því að landslagið hefur gerbreyst síðustu misseri, internetið býður alla aldurshópa velkomna til leiks og í dag fara þar fram viðskipti á ólöglegum og ávísuðum vímuefnum. Mismunandi aðstæður barna og unglinga kalla á að forvarnafræðsla í skólum sé með þeim hætti að ungt fólk sé meðvitaðra um áhættu þess að byrja að fikta við efni, hvaða nafni sem þau kallast. Við nefnum skólana sérstaklega þar sem þeir gegna lykilhlutverki og innan þeirra rúmast sú þekking sem til þarf. Við þessu þarf að bregðast og svarið er að samfélagið í heild verður að vinna saman að því að efla forvarnir. Það er okkar mat að setja þurfi stefnu í málaflokknum, það á aldrei að hugsa um forvarnir sem átaksverkefni heldur verður að samþætta þær við öll svið mannlífs, alltaf.

Höfundar eru þingmenn Miðflokksins. annakolbrun@althingi.is sigurdurpall@althingi.is

Höf.: Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Sigurð Pál Jónsson