Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson
Eftir Jón Val Jensson: "Frú Ford stóð ein uppi með sínar órökstuddu, óstaðfestu ásakanir."

Kavanaugh-málið var mikið hér í fréttum, hart sótt að honum á Vinstri-slagsíðu-Rúvinu, og fóru þar ýmsir offari að sínum vanda. En þegar nafn Bretts Kavanaughs hafði verið hreinsað af órökstuddri ásökun lét prófessor Þorvaldur sér detta sú ósvinna í hug að bera opinberlega á hann það sem hann kallar „trúverðugar ásakanir um kynferðisofbeldi á unglingsárum“!

En Christine Blasey Ford stóð ein uppi með sínar ásakanir, studd engum sönnunargögnum, atburðarlýsing hennar í molum, afar ónákvæm og tortryggileg, gat hvorki tilgreint í hvaða hverfi né í hvaða húsi atburðurinn ætti að hafa átt sér stað né hvernig hún kom þangað eða fór þaðan (bílprófslaus og átti heima fjarri), og engin tilgreind vitni, jafnvel ekki hennar nánasta vinkona, stóðu með hennar fullyrðingum, og þótt þessi sálfræðingur hafi að eigin ósk farið í gegnum lygamæli var hún einmitt sérfróð í því að komast með vissum aðferðum í gegnum lygamælispróf! Fyrrverandi langtímakærasti hennar ljóstraði upp um að hún leiðbeindi einmitt beztu vinkonu sinni í því efni!

Hinar tvær ásakanirnar voru svo langt úti í móum, að jafnvel demókratahneigða blaðið New York Times synjaði birtingar á þeim.

Frú Ford má vænta þess, eins og í hliðstæðum, óstaðfestum ásökunum einnar konu gegn dómaranum Clarence Thomas árið 1991, að söfnunarsjóðir til stuðnings henni fari langt á annað hundrað milljóna króna og renni beint í hennar vasa, en sönnunargögn og vitni hafði hún þó engin. Það hentar samt Clinton-trúum Þorvaldi að bera það á borð fyrir landsmenn að „tveir af fimm í meirihlutanum [í hæstarétti] hafa verið sakaðir með trúverðugum hætti um kynferðisáreiti“! Það væri ekki á góðu von í Hæstarétti Íslands, ef þar sæti maður á borð við Þorvald Gylfason, sem er ekki vandlátari en þetta og lætur sér nægja gersamlega ótrúverðugan framburð um meintan glæp, sem verður ekki studdur neinum rökum.

Brett Kavanaugh hefur gegnt sínum störfum af fullkominni sæmd og með flekklausum hætti og jafnan staðið með virðingu kvenna í sínum álitum og úrskurðum. Lágkúran í atsókninni gegn honum náði nýjum lægðum og varð ekki stuðningsfólki demókrata til annars en langvarandi skammar. Að þetta tengist baráttu „pro-choice“-demókrata fyrir dauða milljóna ófæddra á komandi árum var ljóst af mótmælafundum í Washington og víðar, en verður þeim einungis til enn meiri hneisu.

Athöfnin og snilldarræða Kavanaughs, sem finna má á Facebook er hann var settur inn í embætti hæstaréttardómara í Hvíta húsinu, er hins vegar eftirminnilegur vitnisburður um glæsilegan og trúverðugan dómara: facebook.com/Breitbart/

Endum þetta á einum punkti þaðan: „Dómari á að túlka lögin, ekki að semja lög,“ er meðal góðra grunnreglna Kavanaughs. Megi val hans verða til farsældar fyrir Bandaríkin.

Höfundur er guðfræðingur og fræðimaður. jvjensson@gmail.com