[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Gangi áætlanir eftir gæti uppbygging nýrrar samgöngumiðstöðvar á Ártúnshöfðanum í Reykjavík hafist innan fárra ára. Raunhæft þykir að deiliskipulagsvinnu ljúki í vor.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Gangi áætlanir eftir gæti uppbygging nýrrar samgöngumiðstöðvar á Ártúnshöfðanum í Reykjavík hafist innan fárra ára. Raunhæft þykir að deiliskipulagsvinnu ljúki í vor.

Torgið mun liggja við svonefndan þróunarás milli Sævarhöfða og Höfðabakka. Meðal annars er getið um torgið á söluvef ÞG verk í samhengi við íbúðir í Bryggjuhverfinu.

Segir þar m.a. að við Krossmýrartorg verði biðstöð Borgarlínunnar og meginkjarni hverfisins. Þar verði jafnframt samfélagsþjónusta nýja hverfisins, svo sem heilsugæsla og menningarmiðstöð. Áfram verði verslunarkjarni „með miklum stækkunarmöguleikum við Höfðabakkabrú“. Bendir þetta til að verulegt verslunarrými verði á svæðinu.

Arkís, Landslag og Verkís unnu rammaskipulag að nýrri íbúðarbyggð á Ártúnshöfða, sem kynnt var í byrjun síðasta árs. Vinna við deiliskipulag svæðisins sendur nú yfir. Rammaskipulagið gerir ráð fyrir að Borgarlína liggi þvert í gegnum svæðið, á leggnum Hlemmur-Ártún.

Byrjað á Bryggjuhverfinu

Fyrsti áfangi uppbyggingarinnar verður viðbót við núverandi Bryggjuhverfi til vesturs. Sú uppbygging kallar á flutning Björgunar sem hefur lengi verið í vinnslu.

Á vef borgarinnar segir að ráðgerð sé uppbygging íbúðarhúsnæðis og innviða í hverfinu fyrir allt að 11.500 manns. Fjöldi íbúða gæti orðið um 5.100. Meirihluti þeirra, eða 4.100, á reitum sem skilgreindir eru fyrir íbúðarbyggð, en um þúsund í blandaðri byggð. Til samanburðar búa um 12.500 manns í Árbæ.

Nokkrar arkitektastofur vinna við deiliskipulag á svæðinu. ASK arkitektar eru með eitt svæði, Arkþing annað og Arkís og Landslag með það þriðja. Þá hafa Arkís og Landslag lokið við deiliskipulag þess fjórða.

Páll Gunnlaugsson, arkitekt og framkvæmdastjóri ASK arkitekta, segir vinnu við deiliskipulag reitanna á byrjunarstigi. Vonir séu bundnar við að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.

„Við hjá ASK erum með svæðið norðan og sunnan við Borgarlínuna og við Krossmýrartorgið. Arkþing er að skipuleggja svæðið norðan við okkar svæði, á hæðinni sem snýr að Esjunni. Arkís og Landslag voru búin að deiliskipuleggja nýja byggð á landfyllingu vestan við Bryggjuhverfið. Þá eru Arkís og Landslag að skipuleggja svæðið niðri á flötunum, vestan við bílaumboð BL. Fimmta svæðið er á landfyllingu til móts við Sundahöfn. Sá hluti er kominn skemmra á veg,“ segir Páll og bendir á að það sé hluti af deiliskipulagsvinnunni að velta fyrir sér gatnasniðinu m.t.t. Borgarlínu.

Göturnar verði svolítið breiðar

„Á að vera sérakrein í báðar áttir, fyrir hjól og bíla og bílastæði og gangstígar? Þá verða þetta svolítið breiðar götur. Menn hljóta því að velta fyrir sér götusniðinu. Menn eru ekki komnir nema rétt áleiðis með þetta. Þetta er enn á hugmyndastigi allt saman,“ segir Páll.

Hann segir rætt um að komast langt með skipulagið í vetur. Þá geti deiliskipulagið komið til umfjöllunar í borgarkerfinu næsta vor.

„Maður veit ekki í hvaða áföngum þetta verkefni verður tekið. Ef ég fengi að ráða myndi ég vilja fá Borgarlínuna í fyrsta áfanga. Hún kallar á þverun Elliðaáa. Auðvitað væri gaman að sjá Borgarlínuna til að selja svæðið. Það er hins vegar ekki í okkar höndum. Pólitíkin og peningarnir ráða för,“ segir Páll.

Hefur mikla þýðingu

Björn Guðbrandsson, arkitekt hjá Arkís, kom að gerð rammaskipulags fyrir Ártúnshöfða. Hann segir búið að gera deiliskipulag fyrir framlengingu af Bryggjuhverfinu. Unnið sé að því að gera deiliskipulag fyrir þrjá áfanga til viðbótar. Hann segir aðspurður að Krossmýrartorgið muni hafa mikla þýðingu fyrir svæðið.

„Þetta verður náttúrlega algjör miðpunktur. Við erum þá sérstaklega að horfa á að þetta verði megintengipunktur fyrir samgöngukerfið. Það má segja að Borgarlínan sé lykilatriði í því að torgið verði jafn kröftugt og menn sjá fyrir sér. Það má gera ráð fyrir að þarna verði þungamiðjan í verslun og þjónustu í þessu hverfi,“ segir Björn.

Hann kveðst aðspurður telja að uppbygging geti hafist fljótlega við framlengingu á Bryggjuhverfinu. Þá geti uppbygging á þeim þremur reitum sem verið er að gera deiliskipulag á eflaust hafist á næstu árum.