[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Gustav Möller. Handrit: Emil Nygaard Albertsen og Gustav Möller. Aðalleikarar: Jakob Cedergren, Jessica Dinnage, Johan Olsen og Jacob Lohmann. Danmörk, 2018. 85 mín.

Það þarf ekki háar fjárhæðir til að búa til vandaðar og áhrifamiklar kvikmyndir og danska kvikmyndin Den skyldige er ein slík. Ef ekki hefði verið fyrir ríkisstyrk hefði hún líklega aldrei verið gerð en hún var styrkt af New Danish Cinema, verkefni sem heyrir undir dönsku kvikmyndastofnunina, Den danske filminstitut. Og myndin sýnir enn fremur að ekki þarf hasar og læti til að búa til spennu.

Í Hinum seka segir af lögreglumanninum Asger sem settur hefur verið á vakt hjá dönsku neyðarlínunni og þarf þar að svara misáríðandi innhringingum. Ástæðan fyrir því að Asger er þangað kominn í stað þess að framfylgja lögunum á götum Kaupmannahafnar liggur ekki fyrir framan af mynd, en fljótlega kemur í ljós að hann þarf að mæta fyrir rétt næsta dag og félagi hans þarf að bera vitni. Hvers vegna verður ekki gefið upp, frekar en margt annað þegar kemur að söguþræðinum, í þessari gagnrýni þar sem hætt er við að það myndi eyðileggja fyrir þeim sem ætla að sjá myndina.

Þegar stutt er eftir af vaktinni fær Asger símtal frá konu sem hann heldur í fyrstu að sé ölvuð og að fíflast í honum af því hún kallar hann ástina sína. Hann áttar sig þó fljótlega á því að konunni hefur verið rænt og að mannræninginn hefur leyft henni að hringja í þeirri trú að hún sé að tala við dóttur sína.

Asger reynir að fá eins miklar upplýsingar og hann getur og kemst að því hver konan er og að börn hennar tvö eru ein heima. Hann hringir heim til konunnar og dóttir hennar svarar í símann. Asger heitir henni því að mamma hennar komi bráðum heim og reynir það sem eftir er myndar að standa við það loforð með símann einan að vopni. Asger verður sífellt örvæntingarfyllri í björgunartilraunum sínum og fer langt út fyrir starfssvið sitt sem starfsmaður neyðarlínunnar. Tíminn er naumur og Asger beitir ýmsum aðferðum í von um að geta bjargað konunni.

Hinn seki tilheyrir ákveðinni gerð spennumynda, þrillera, sem fara fram í afmörkuðu og oft þröngu rými. Má af slíkum nefna Dog Day Afternoon sem leikstjórinn Möller mun m.a. hafa litið til við gerð Hins seka og Buried sem segir af manni sem hefur verið grafinn lifandi og berst fyrir lífi sínu inni í líkkistunni með farsíma og kveikjara við höndina.

Jakob Cedergren er frábær í hlutverki lögreglumannsins Asgers og mæðir mikið á honum þar sem hann er í mynd allan tímann og nær alltaf í símanum. Myndin stendur og fellur með frammistöðu leikarans, raddblæ hans og svipbrigðum.

Mótleikararnir standa sig líka vel en þeir sjást auðvitað flestir aldrei – fyrir utan þá sem eru starfsmenn neyðarlínunnar – þar sem þeir eru að tala við Cedergren í síma. Ber þar sérstaklega að nefna Jessicu Dinnage sem leikur konuna sem hefur verið rænt, Iben, og hina barnungu Katinku Evers-Jahnsen sem er ótrúlega sannfærandi í hlutverki dóttur Iben. Sá sem ekki kemst við af því að hlusta á barnið grátandi í símanum er líklega tilfinningalaus.

Handrit myndarinnar er mjög vel skrifað og útpælt, handritshöfundar afhjúpa sannleikann í mátulegum skömmtum og beina athygli áhorfandans listilega frá honum þegar þörf er á. Ekki er allt sem sýnist og ýmsum spurningum er varpað fram, m.a. hver sé hinn seki sem titill myndarinnar vísar í og hvernig réttast sé að bregðast við í aðstæðum á borð við þær sem Asger lendir í.

Myndatakan, lýsing og tónlist magna spennuna upp og hún nær hámarki í seinni hluta myndarinnar en dettur dálítið niður undir blálokin. Helst til mikið er þá gefið upp um ástæðu þess að Asger þarf að mæta fyrir rétt næsta dag og betur hefði farið á því að leyfa áhorfendum að geta í eyðurnar.

Endirinn kemur á óvart, svo ekki sé meira sagt, og það er ákveðið afrek út af fyrir sig. Og ekki má gleyma einu því allra mikilvægasta í myndinni en það er hljóðhönnunin. Hún er framúrskarandi og þau atriði þar sem Asger hlustar þögull á það sem er að gerast á hinum enda línunnar eru rafmögnuð. Bíógestir héldu í sér andanum í einu slíku og þögnin sem fylgdi skelfilegri uppgötvun var meira hrollvekjandi en nokkurt hljóð.

Helgi Snær Sigurðsson