Sana. AFP. | Ahmed Hassan er aðeins nokkurra mánaða gamall og grindhoraður líkami hans kippist til þegar hann æpir af sársauka við það að læknir setur hann varfærnislega á vog. Barnið sveltur.

Sana. AFP. | Ahmed Hassan er aðeins nokkurra mánaða gamall og grindhoraður líkami hans kippist til þegar hann æpir af sársauka við það að læknir setur hann varfærnislega á vog. Barnið sveltur.

Í næstu stofu á Sabaeen-sjúkrahúsinu í Sana, höfuðborg Jemens, útbúa hjúkrunarfræðingar mjólkurblöndu í könnur og búa sig undir að næra alvarlega vannærð ungbörn. Sum þeirra eru svo máttfarin að þau geta ekki kyngt og þurfa því að fá næringarslöngu sem sett er í nef þeirra og ofan í maga.

Sumum ungbarnanna virðist líða betur eftir að þau fá næringuna. Þau skríða til annarra sármagurra barna sem leika sér, sum enn með næringarslöngu festa á andlitinu.

„Lífið er orðið mjög erfitt... en við gerum okkar besta, við erfiðar aðstæður,“ segir Umm Tarek, sem kom með níu mánaða son sinn á sjúkrahúsið. „Við erum ekki héðan, þannig að við leigjum eldgamalt hús í Hiziaz [bæ sunnan við Sana]. Hann veiktist vegna þess að við gátum ekki haldið áfram að gefa honum mjólkurblöndu því að við höfum ekki lengur efni á að borga leiguna og kaupa mjólkurduft.“

Barnalæknirinn Sharaf Nashwan segir að sumar fjölskyldur í Jemen hafi ekki efni á að koma vannærðum börnum sínum á sjúkrahús. „Börnin þjást því af vannæringu dögum og vikum saman án þess að fá hjálp þar til einhver sér aumur á fjölskyldunni og gefur henni aura til að koma barninu á sjúkrahús. En þá er barnið orðið mjög alvarlega vannært.“