Fjölhæfur Örn Ingi Gíslason var öflugur listamaður sem fór ótroðnar slóðir í listsköpun og gjörningum.
Fjölhæfur Örn Ingi Gíslason var öflugur listamaður sem fór ótroðnar slóðir í listsköpun og gjörningum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is „Örn Ingi Gíslason lætur eftir sig gríðarlega mikið af verkum af öllum gerðum.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Örn Ingi Gíslason lætur eftir sig gríðarlega mikið af verkum af öllum gerðum. Skúlptúra, gjörninga, málverk, höggmyndir, tréverk, skartgripi, ljósmyndir, samsett verk, kvikmyndir og útvarpsþætti svo eitthvað sé nefnt,“ segir Halldóra Arnardóttir, listfræðingur og sýningarstjóri, um sýninguna LEIK-fimi sem hefst í Listasafni Akureyrar á morgun kl. 15.

„Erni Inga, sem var sjálfmenntaður fjöllistamaður, var boðið árið 2016 að setja upp sýningu á safninu 2018. Hann lést í september 2017 en yfirlitssýning á verkum hans hélst á dagskrá safnsins. Örn Ingi hafði óskað eftir því við tengdason sinn, Javier Sánchez Merina arkitekt, að hann myndi hanna sýninguna. Þegar Örn Ingi lést 2017 var ákveðið að búa til bók um verk hans,“ segir Halldóra, sem gegnir tveimur hlutverkum við sýninguna; auk þess að vera sýningarstjóri er hún dóttir Arnar Inga.

„Þegar við Javier töluðum saman um útfærslur kom hann með hugmyndina um að setja upp sýningu með verkum Arnar Inga sem yrði í raun efnisöflun og skrif bókarinnar um hann á sama tíma. Bókin verður skrifuð á sýningartímanum og kynnt 26. janúar á síðustu sýningarhelgi á málþingi um Örn Inga og gildi myndlistar í samfélaginu,“ segir Halldóra og bætir við að sýningin sé í raun og veru gjörningur og fræðasetur á sama tíma. Við opnun sýningarinnar muni hún klæðast hvítum slopp ásamt fyrrverandi nemendum Arnar Inga, frá myndlistarskóla hans á Akureyri. Ekkert verk verði uppsett á sýningunni en hún og sloppaklæddir einstaklingar verði tilbúnir til þess að opna fulla kassa með listaverkum hans og hefja rannsóknarstörf og skráningu.

„Veggir safnsins verða klæddir vírneti til að taka við verkunum og þannig verður auðvelt að breyta um staðsetningu verka eftir samhengi. Við vitum ekki hvað kemur upp úr hvaða kassa, þannig að seríur geta komið á mismunandi tímum. Með tímanum mun sýningin þróast og rannsókninni miða áfram,“ segir Halldóra og bætir við að á opnuninni muni meðal annars, íslenskir og svissneskir, lista- og tónlistarmenn sem tóku þátt í gjörningum með Erni 1979 og 1980 afhenda greinar um listamanninn, sýndur verði dans og gestir taka þátt í sjálfsskoðun. Á sunnudag munu samferðamenn Arnar Inga afhenda greinar um ferðalagið með honum og hvað þeir telji að hann hafi lagt fram til listarinnar.

Halldóra segir að pabbi sinn hafi rúmlega fertugur sagt upp starfi sem bankamaður og ákveðið að helga sig listinni.

„Pabbi hefur aldrei verið hræddur við að prófa eitthvað nýtt. En hann hafði líka góða konu sér við hlið. Hann hafði kjark til þess að fara úr öruggu starfsumhverfi og var ótrúlega öflugur og fjölhæfur listamaður,“ segir Halldóra og bætir við að faðir sinn hafi alla tíð sagt sína meiningu og verið trúr hugsjónum sínum ævina á enda.

Þegar ég fór að skoða feril föður míns kom það mér helst á óvart hversu einstaklega gott hann virtist eiga með að fá fólk til þess að vinna með sér,“ segir Halldóra, sem segir mikla vinnu fram undan að ná utan um verk föður hennar. Hann hafi ekki haldið skrá yfir öll verk sín og hún búið erlendis í 30 ár.