Allir hljóta að hafa samúð með Ítalíu. En meira þarf til að trúa því að þeir standist atlöguna

Svo getur farið að Brexit-útgangan hverfi í skugga annarra atburða í Evrópusambandinu. Það hefði allt til þessa þótt ólíklegt.

En það urðu kaflaskil í valdabrölti ESB þegar skriffinnar þess endursendu ítölsku ríkisstjórninni fjárlagafrumvarp hennar, sem hún taldi sig hafa sent norður eftir til kynningar sem hreins formsatriðis. En annað kom á daginn. Nú er komið í ljós að valdhafar í Brussel líta á fjárlögin frá Róm sem endanlega sín, þótt ríkisstjórnir í höfuðstað einstakra ESB-landa fái enn um hríð að gera uppkastið að þeim. Það sé ekki lengur sent til Brussel til kynningar. Þangað sé það nú sent til samþykktar eða synjunar.

Og þeir andlitslausu með skattfrjálsu launin sín í virkjum valdsins í Brussel tilkynntu einfaldlega að þeir höfnuðu „ítölsku“ fjárlögunum. Skipuðu þeir skátadrengjunum í Róm að sýna að þeir væru ávallt viðbúnir og bæri að senda yfirboðurum sínum, skrifstofublókunum í Brussel, „innan 15 daga“ fjárlög sem þeir þar gætu sætt sig við.

Varaforsætisráðherra og innanríkisráðherra Ítalíu, lýðræðislega kosinn og þekkt andlit í sínu heimalandi, brást harkalega við. Svaraði hann að bragði að ítalska ríkisstjórnin myndi ekki taka svo mikið sem eina evru úr fjárlagafrumvarpinu. Sennilegra væri að hún myndi svara þessari ósvífnu ögrun með því auka við á útgjaldahlið laganna í samræmi við eindreginn þjóðarvilja.

Vissulega muna menn of vel eftir því að stjórnmálamenn úr öllum flokkum tóku stórt upp í sig í Grikklandi við svipaðar aðstæður. Sósíalistinn Tsipras var hvað glaðbeittastur þeirra og leiðtogar flokkanna hægra og vinstra megin við miðjuna voru skammt undan. En „eldhuginn“ Tsipras endaði kylliflatur og framlágur við fætur meistaranna í Brussel og AGS. Hann hélt forsætisráðherratitlinum að nafninu til en var í raun aðeins fremstur í röð þeirra sendisveina sem grísk stjórnmál lögðu erlendum yfirboðurum sínum til.

Formlegum björgunaraðgerðum er nú lokið í Grikklandi með þeim árangri að þjóðarframleiðsla þess hefur dregist saman um fjórðung og Grikkir sitja uppi með skuldir sem þeir fá aldrei greitt. Það er þó huggun þessum harmi gegn að þeir þýsku og frönsku bankar sem áttu töluvert undir eru nú komnir fyrir vind og bónusar burgeisa þar farnir að virka eins og áður og það var jú fyrir mestu.

Salvini og félagar hans í ítölsku ríkisstjórninni, sem hefur ríflegan meirihluta á þinginu í Róm, segja brattir að Ítalíu verði ekki líkt við Grikkland. Og vissulega eru þar á ferð annars vegar stórríki í ESB og hins vegar smáríki í ESB. Engin ríki eru eins neðarlega á virðingarskala veraldar og smáríki í ESB. En nær 80 ára dæmi er þó til um það að Ítalía hafi ekki alltaf haft mikið í Grikkland að gera.

En hvað sem því líður eru viðbrögð Matteo Salvini varaforsætisráðherra næsta einstök. Hann biður nú landa sína að fjölmenna í mótmælagöngu hinn 8. desember næstkomandi til stuðnings ríkisstjórninni í baráttunni. Sýna þar samstöðu og styrk svo þeim í Brussel verði ljóst að Ítalir knékrjúpi ekki lengur. „Ítalir eru ekki lengur þrælar,“ segir Salvini, „þeir hafa risið upp og svara hnarreistir fyrir sig.“

Vonandi hefur hann og aðrir í stjórnarmeirihlutanum afl til að fylgja digrum orðum sínum eftir. En það má ekki gleyma því að við ofurefli er að etja.

Grikkir sáu fljótt í sínu andófi að þeir höfðu gefið frá sér sitt einasta vopn, sjálfstæðan gjaldmiðil sinn. Það hafa Ítalir einnig gert. En ekki Bretar. Sá er munurinn. Án pundsins færu þeir hvergi.