Della Hrekkjavaka tekur á sig ýmsar myndir hér á landi.
Della Hrekkjavaka tekur á sig ýmsar myndir hér á landi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hrekkjavökuhátíðinni hefur því miður vaxið fiskur um hrygg hér á landi á undanförnum árum.

Hrekkjavökuhátíðinni hefur því miður vaxið fiskur um hrygg hér á landi á undanförnum árum. Hér er á ferðinni dæmalaus della sem virðist ganga út á að börn klæði sig í svarta kufla, máli sig sóðalega og gangi milli húsa í þeim tilgangi að sníkja sælgæti sem stöðugt er verið að sporna við neyslu á.

Þessi endemis della mun vera komin frá Bandaríkjunum og hefur ekkert að gera með íslenska siði og venjur. Því miður er ekki um að ræða einu þvæluna sem flutt hefur verið þaðan hingað til lands á síðustu árum.

Síðdegis og fram á kvöld í fyrradag var stanslaus straumur barna að heimili Ljósvaka. Þau knúðu dyra og ráku upp misskýr öskur með skilaboðum um „grikk eða gott“ þegar útidyrunum var lokið upp.

Dellan gekk svo langt að brögð voru að því að foreldrar ækju börnum sínum milli húsa til þessara sníkjutúra eftir sælgæti. Sælgæti sem flest þeirra hafa ekkert gott af, frekar en þeir eldri. Illskárra hefði verið ef foreldrarnir hefðu nú drifið sig út úr bílunum og gengið með börnunum milli húsa og íbúða.

Og auðvitað dansa fjölmiðlar með í þessari vitleysu ár eftir ár.

Ívar Benediktsson