Landsréttur Geir H. Haarde í Landsrétti árið 2012.
Landsréttur Geir H. Haarde í Landsrétti árið 2012. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is „Ég ætla ekki að eyða þeim dýrmæta tíma sem eftir er í að bera kala til fólks. Ég vil nú ekki vera það stór upp á mig að segja ég sé yfir það hafinn en ég bara ætla ekki að gera það,“ segir Geir H.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

„Ég ætla ekki að eyða þeim dýrmæta tíma sem eftir er í að bera kala til fólks. Ég vil nú ekki vera það stór upp á mig að segja ég sé yfir það hafinn en ég bara ætla ekki að gera það,“ segir Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og fyrrverandi forsætisráðherra, í viðtali fyrir GLS-leiðtogaráðstefnuna sem hefst í dag. „Í þessum réttarhöldum voru bornar fram ásakanir á mig, sem hefðu getað endað með því að ég færi í fangelsi, sem voru að mínum dómi fjarri öllu lagi og fullkomlega út í hött eins og dómstólinn komst reyndar að raun um, fyrir utan eitt formsatriði,“ bætir Geir við.

GLS-ráðstefnan, eða Global Leadership Summit, hefst í dag og er þetta 10 ára afmælisráðstefna hátíðarinnar. Fer ráðstefnan fram í Háskólabíói og verður viðtalið við Geir meðal annars spilað þar sem hann fer yfir hvernig var að takast á við að vera leiðtogi á tímum hrunsins.

Hann segir í viðtalinu að réttarhöldin í Landsrétti hafi verið hrakför sem aldrei hefði átt að leggja af stað í. Spurður um hvernig hann ráðleggur fólki að vinna úr því þegar fólk ber mann þungum sökum hann segir nauðsynlegt að ná stjórn á sjálfum sér fyrst. „Það þarf að ná stjórn á sjálfum sér og passa að láta ekki gremjuna, vonbrigðin og reiðina ná yfirhöndinni og beina því í réttan farveg. Svo er nú eitt til og það er fyrirgefningin sem kemur oft í kjölfar iðrunar hjá hinum aðilunum. Það er voða gott að geta fyrirgefið fólki,“ segir Geir og bætir við að ýmsir aðilar sem tóku þátt í Landsréttarmálinu hafi komið til hans og beðist fyrirgefningar, bæði beint og óbeint.