Nýjung Skálafell kemur í fyrsta skipti við á Bíldudal. Það liggur við hafnarkantinn við kalkþörungaverksmiðjuna. Þar er laxinum skipað út.
Nýjung Skálafell kemur í fyrsta skipti við á Bíldudal. Það liggur við hafnarkantinn við kalkþörungaverksmiðjuna. Þar er laxinum skipað út. — Ljósmynd/Samskip
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Bíldudalur er nýr viðkomustaður í nýrri siglingaáætlun Samskipa. Afurðir sem þaðan eru fluttar eru komnar til Englands eftir fjóra daga.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bíldudalur er nýr viðkomustaður í nýrri siglingaáætlun Samskipa. Afurðir sem þaðan eru fluttar eru komnar til Englands eftir fjóra daga. Grundvöllur þessarar nýjungar er samningur Samskipa við Arnarlax um flutning á laxi á erlendan markað og rekstrarvörum til baka en önnur fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum geta einnig nýtt sér þjónustuna.

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Við getum flutt fiskinn beint frá Bíldudal út á markaðinn. Flutningarnir hafa verið áskorun hingað til, þótt þeir hafi gengið vel,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Arnarlaxi.

Andi Péturs svífur yfir

„Samningurinn við Arnarlax varð til þess að við fórum að sigla til Bíldudals. Við vorum þar í fyrsta skipti í gær [fyrradag]. Við finnum að mikill áhugi er hjá öðrum fyrirtækjum á að nýta þessa þjónustu,“ segir Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa. Á Bíldudal er kalkþörungaverksmiðja og fiskvinnslur á öllum stöðunum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Birkir segist finna fyrir bjartsýni á Bíldudal. Andi Péturs Thorsteinssonar athafnamanns svífi yfir vötnum en hann gerði út flutningaskip frá Bíldudal til millilandasiglinga fyrir rúmri öld.

Skipin koma við á Bíldudal alla miðvikudaga á leið til Reykjavíkur og eru komin til Hull á sunnudagsmorgni og halda síðan til meginlands Evrópu.

Arnarlax hefur flutt afurðir sínar með flutningabílum fyrir flug frá Keflavík og til Reykjavíkur og nýtt fleiri flutningsmöguleika. Hefur það skapað mikið álag á vegina en enn er kafli á Vestfjarðavegi lélegur malarvegur. Víkingur segir að áfram verði afurðir fluttar landleiðis og með flugi.

Undirbúa aukningu

Flutningskostnaður er minni við sjóflutning en flutning með bílum og flugvélum. Víkingur segir að samningurinn við Samskip sé einnig liður í að undirbúa framleiðsluaukningu á næstu árum. Fram undan er framleiðsla fyrir jólavertíðina.

Birkir segir að gert sé ráð fyrir að skip félagsins muni einnig hafa viðkomu á Ísafirði í framtíðinni. Eftir sé að ákveða með hvaða hætti þjónustan verði.