[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Allt stefnir í að tap Íslandspósts af bréfum sem fara í gegnum fyrirtækið á grundvelli einkaréttar þess á sendingum af því tagi muni verða 450 milljónir umfram þær áætlanir sem fyrirtækið lagði upp með í upphafi árs. Þetta staðfestir Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, í samtali við Morgunblaðið. Í gær greindi Morgunblaðið frá því að það sem af er ári hafa fyrrnefndar bréfsendingar dregist saman um 14%.

„Samdrátturinn virðist aðeins vera að aukast og reyndist 23% í september og 20% í október,“ segir Ingimundur en fyrirtækið hafði gert ráð fyrir að samdrátturinn yrði um 7% á þessu ári.

Eins og greint hefur verið frá hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið veitt fyrirtækinu 500 milljóna króna skammtímafyrirgreiðslu til 12 mánaða vegna bráðs lausafjárvanda þess. Sú lánveiting var veitt í september og áður en ljóst var orðið að enn myndi syrta í álinn varðandi fækkun bréfsendinga.

„Það er ljóst að ef samdrátturinn verður með þessum hætti þá mun fyrirtækið þurfa á frekari stuðningi að halda vegna tekjutapsins. Póstþjónusta er lögum samkvæmt á ábyrgð ríkisins. Íslandspóstur sinnir henni á grundvelli rekstrarleyfis. Ef hrun verður í bréfamagni og tekjum þar með, verður að mæta því með fjárveitingu eða skerðingu á þjónustu. Tekjur af einkaréttinum hafa hingað til að hluta verið nýttar til að greiða niður alþjónustuna, sem ekki eru viðskiptalegar forsendur fyrir, en alþjónustuskyldan felst í því að dreifa sendingum allt að 20 kg um allt land, m.a. á óhagkvæmum svæðum þar sem enginn vill sinna þeirri þjónustu,“ segir Ingimundur.

Bendir hann á að hagnaður af einkarétti fyrirtækisins hafi á síðustu árum ekki dugað til að standa undir kostnaði við ófjármagnaða alþjónustu.

„Íslandspóstur hefur verið að greiða niður tap af alþjónustunni með samkeppnisvörum og lántökum og nú þegar tekjurnar af einkaréttarbréfunum dregst jafn harkalega saman og raun ber vitni þá verður þessi staða illviðráðanleg. Við höfum í raun ekki tækin í höndunum til að bregðast strax við nema að takmörkuðu leyti, því stór hluti þjónustunnar er bundinn lögum og reglugerðum.“

Samkvæmt lögum má einkaréttarþjónustan sem Íslandspóstur sinnir ekki skila nema ákveðnum, ákvörðuðum hagnaði og því er gjaldskráin lögbundin.

Hagræðingar leitað

Fyrirtækið hefur farið fram á það við Póst- og fjarskiptastofnun að verðskrá verði hækkuð en reiknað var með að slík breyting hefði aukið tekjur fyrirtækisins um 100 milljónir á þessu ári.

„Það er ekkert sem bendir til þess að orðið verði við þeirri beiðni okkar. En á sama tíma og við höfum bent á nauðsyn þess að hækka verðskrá þá höfum við ráðist í ýmsar hagræðingaraðgerðir, en þær duga engan veginn til,“ segir Ingimundur.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti munu þær aðgerðir fela í sér sparnað upp á 160 milljónir króna sem hvergi nærri mun duga til að mæta því tapi sem flest stefnir í að verði af rekstrinum.

Skjótt skipast veður
» Í nóvember 2017 ákvað fyrirtækið að ráðast í framkvæmdir við stækkun póstmiðstöðvar á Stórhöfða sem kosta 700 milljónir.
» Árið 2017 var 216 milljóna hagnaður af rekstrinum.
» Í september fékk fyrirtækið 500 milljóna lán vegna lausafjárstöðu sinnar.