Athugull Stofn landsels hefur átt í vök að verjast frá því um 1980. Árið 2016 var talið að um 7.770 dýr hefðu verið í stofninum.
Athugull Stofn landsels hefur átt í vök að verjast frá því um 1980. Árið 2016 var talið að um 7.770 dýr hefðu verið í stofninum. — Ljósmynd/Sandra
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Veiðar á landsel í grennd við ósa laxveiðiá verða teknar til umræðu á vettvangi Landssambands veiðifélaga, að sögn Jóns Helga Björnssonar, formanns sambandsins.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Veiðar á landsel í grennd við ósa laxveiðiá verða teknar til umræðu á vettvangi Landssambands veiðifélaga, að sögn Jóns Helga Björnssonar, formanns sambandsins. „Það er eðlilegt að við ræðum í okkar röðum um selveiðar og stöðu stofnsins. Fjöldi landsela hefur verið á niðurleið og ég tel þá eðlilegt að menn hlífi þessum stofni við veiðum,“ segir Jón Helgi.

Stofn landsels hefur hrunið um 77% hér við land frá 1980 og eru ástæður þess taldar vera af ýmsum toga. Selveiði við veiðiár er ein ástæðan og í Morgunblaðinu í gær kom fram í samtali við Söndru M. Granquist, selasérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun og á Selasetrinu á Hvammstanga, að árlega síðustu fimm ár hefðu 40-200 selir verið skotnir við laxveiðiár. Það væri þó ekki nákvæm tala því ekki væri skylt að skrá og tilkynna um veiddan sel.

Hún vísaði jafnframt til rannsókna þar sem fram kemur að lax sé ekki á matseðli landsels. Hún sagði það sérkennilegt að veiða sel af stofni sem væri í bráðri útrýmingarhættu til að vernda lax sem ekki væri mikilvægur í fæðu sels eins og áður hefði verið talið. Í annarri rannsókn hefði komið fram að innan við 1% af veiddum laxi hefði verið selbitinn.

Ekki sannfærður um sakleysi selsins

Jón Helgi sagði að í gegnum árin hefði eitthvað verið um að ósar hefðu verið varðir fyrir sel. „Ég tel eðlilegt að menn endurskoði slíkar veiðar og íhugi þá vandlega að hætta því.“

Hann sagðist þó ekki alveg sannfærður um að selurinn væri eins saklaus og af væri látið. Sjálfur hefði hann oft veitt selbitinn lax og hefði séð sel elta lax. Selbit virtist þó vera misjafnt á milli ára og það gæti tengst því að selastofninn hefði verið að minnka. „Ég hef oft séð einstaka seli vera að sniglast í árósum þegar laxinn er að ganga, en vissulega eru aðrar tegundir meginfæða selsins,“ sagði Jón Helgi.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er aðeins lítill hluti af þeim sel sem veiddur er við árósa nýttur.