— Morgunblaðið/Hari
Skoski tónlistarmaðurinn Midge Ure kemur fram með hljómsveitinni Todmobile í Eldborg í Hörpu í kvöld á tónleikum sem haldnir eru í tilefni af þrítugsafmæli hljómsveitarinnar.

Skoski tónlistarmaðurinn Midge Ure kemur fram með hljómsveitinni Todmobile í Eldborg í Hörpu í kvöld á tónleikum sem haldnir eru í tilefni af þrítugsafmæli hljómsveitarinnar. Ure verður heiðursgestur hljómsveitarinnar, en hann gerði garðinn frægan sem söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Ultravox. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, SinfoniaNord, kemur einnig fram á tónleikunum í kvöld og leikin verða vinsælustu lög Todmobile, Ultravox og Midge Ure. Má af þeim nefna „Brúðkaupslagið“ og „Stelpurokk“ úr safni Todmobile og „Vienna“ og „If I Was“ úr smiðju Ure.

Ure æfði af kappi fyrir tónleikana í gær í sal Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði. Var að sjálfsögðu tekið eitt rennsli á hinu margfræga „Vienna“.