[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Kristen Denise McCarthy, bandarískan leikmann Snæfells, dreymir um að spila með íslenska kvennalandsliðinu í körfuknattleik einn daginn en hún sótti um íslenskan ríkisborgararétt fyrr í haust.

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kristen Denise McCarthy, bandarískan leikmann Snæfells, dreymir um að spila með íslenska kvennalandsliðinu í körfuknattleik einn daginn en hún sótti um íslenskan ríkisborgararétt fyrr í haust. Kristen Gunnarsdóttir, eins og hún vill láta kalla sig, kom fyrst til Íslands árið 2014 til þess að spila með Snæfelli í úrvalsdeild kvenna og heillaðist af landi og þjóð. Hún endursamdi við Snæfell árið 2017 og hefur spilað í Stykkishólmi síðan en hún er leikmaður októbermánaðar í Dominos-deild kvenna að mati Morgunblaðsins.

„Ég er mjög ánægð með þessa byrjun okkar á tímabilinu. Við höfum unnið fimm leiki og tapað einum sem verður að teljast ágætis árangur. Í fullkomnum heimi værum við ósigraðar en við deilum efsta sætinu með KR eftir fyrstu sex leikina og við getum verið stoltar af því. Markmiðið fyrir tímabilið var að berjast á toppi deildarinnar og það er því mjög mikilvægt að byrja tímabilið jafn vel og við höfum gert. Við erum ekki alveg komnar á þann stað sem við viljum vera á sem lið og við getum ennþá bætt okkur mikið. Það er þess vegna jákvætt að vera á toppi deildarinnar, vitandi það, að við getum gert ennþá betur.“

Kristen hefur verið frábær í upphafi tímabils með Snæfelli og hefur hún skorað 30 stig, tekið 13 fráköst og gefið 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þrátt fyrir það er leikmaðurinn staðráðinn í að bæta sig enn frekar.

Geta farið alla leið

„Ég er nokkuð sátt með mína spilamennsku í fyrstu leikjum tímabilsins en að sama skapi veit ég að ég get gert betur. Það sem hefur kannski mest vantað upp á hjá bæði mér og liðinu er að byrja leikina af meiri krafti en við höfum verið að gera. Við höfum lent undir í nánast öllum leikjum sem við höfum spilað, í upphafi tímabilsins, og það er eitthvað sem ég sjálf þarf að laga. Ég þarf sjálf að vera öflugri í upphafi leikja og reyna að klára leikina í fyrstu leikhlutunum.“

Snæfell hefur farið virkilega vel af stað í deildinni í ár og er í efsta sæti deildarinnar, ásamt KR, með tíu stig eftir fyrstu sex leiki tímabilsins.

„Ég tel Snæfell vera með lið sem getur farið alla leið í ár og landað Íslandsmeistaratitlinum. Það er mikið af mjög hæfileikaríkum leikmönnum í liðinu, bæði í byrjunarliðinu og svo leikmenn sem geta komið inn af bekknum. Tímabilið í fyrra var mjög erfitt fyrir okkur því okkur vantaði einfaldlega mannskap. Stundum vorum við nánast ekki með bekk í sumum leikjum sem við spiluðum og það tók mikið á. Við erum með frábæra þjálfara í ár sem vinna mjög vel saman og það eru í raun engin takmörk fyrir því, hversu langt við getum farið, ef allir leikmenn liðsins haldast heilir.“

Ingi Þór Steinþórsson hætti nokkuð óvænt með kvenna- og karlalið Snæfells í sumar til þess að taka við karlaliði KR en hann hafði stýrt skútunni í Stykkishólmi frá árinu 2009. Baldur Þórólfsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Inga, tók við liðinu og hefur hann gert góða hluti með liðið í fyrstu leikjum tímabilsins.

Jákvæð læti á hliðarlínunni

„Ingi og Baldur er mjög ólíkir einstaklingar en þeir eru báðir frábærir þjálfarar. Baldur lætur vel í sér heyra á hliðarlínunni, enda er hann aðalþjálfari liðsins í ár. Ég hef unnið lengi með honum og þekki hann því vel sem þjálfara. Það er ekkert nýtt að Baldur láti í sér heyra á hliðarlínunni og það er bara jákvætt. Hann er tilfinningaríkur og lætur vel í sér heyra en að sama skapi er hann mjög duglegur að hvetja okkur áfram. Við erum í þessu til þess að ná í sigra og það hjálpar okkur að hafa þjálfara á hliðarlínunni sem er alltaf að reyna að ná því besta út úr okkur. Við leggjum meiri áherslu á vörnina núna en í fyrra og Baldur hefur komið inn með sínar áherslur sem ég tel að hafi virkað vel fyrir liðið.“

Sú breyting var gerð fyrir tímabilið í körfuboltanum hér heima .í haust að lið geta nú með óheftum hætti teflt fram leikmönnum frá ríkjum EES, og því mega fleiri útlendingar vera inni á vellinum á sama tíma en tíðkast hefur síðustu ár. Kristen fagnar þessari þróun og segir hana jákvæða fyrir íslenskan körfubolta, og ekki síst landsbyggðarliðin.

„Ég tel þetta vera góða þróun fyrir íslenskan körfubolta. Sum lið þurfa ekki á þessu að halda, eins og til dæmis Keflavík, sem er með frábært yngri flokka starf. Fyrir lið eins og okkur og sem dæmi Skallagrím, þá er þetta lífsnauðsynlegt. Það er mjög erfitt fyrir okkur að fá íslenska leikmenn þar sem margar stelpur vilja ekki fara langt út fyrir borgarmörkin. Í dag væri erfitt fyrir Skallagrím að ná í lið, ef þær væru ekki með evrópska leikmenn innanborð, og þetta er því góð þróun fyrir liðin úti á landi sérstaklega. Vissulega mun þetta taka einhvern spilatíma af íslenskum leikmönnum en að sama skapi er líka hellingur sem íslenskir leikmenn geta lært af erlendum leikmönnum sem koma hingað og hafa spilað víða. Það eru ekki margir íslenskir leikmenn sem hafa spilað annars staðar en á Íslandi og liðin ráða því líka sjálf, hvort þau nýta sér þessa nýju reglubreytingu eða ekki. Þegar allt kemur til alls þá tel ég þetta hjálpa íslenskum kvennakörfubolta.“

Kristen hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Íslandi í gegnum tíðina en hún sótti um íslenskan ríkisborgararétt í haust. Draumur hennar er að fá tækifæri með íslenska landsliðinu einn daginn.

Líður best á Íslandi

„Ég sótti um íslenskan ríkisborgararétt um mánaðamótin september/október og það væri frábært ef umsókn mín yrði samþykkt af íslenskum yfirvöldum. Ísland á stóran stað í mínu hjarta og mér líður mjög vel hérna. Ég spilaði með Snæfelli á árunum 2014 til 2015 en sneri aftur árið 2017. Í þessi tvö ár sem ég var í burtu hugsaði ég daglega til landsins og óskaði þess að ég væri stödd á Íslandi. Ég á mína eigin fjölskyldu hér sem ég elska af öllu mínu hjarta og hér vil ég vera. Ég neita því ekki að það hefur lengi verið draumur hjá mér að spila fyrir íslenska landsliðið og fari svo að umsókn mín um íslenskan ríkisborgararétt verði samþykkt, þá yrði það mikill heiður fyrir mig að vera valin í landsliðið. Að fá að klæðast íslensku treyjunni yrði ekkert annað en heiður fyrir mig enda tenging mín við landið nokkuð sem ég á erfitt með að útskýra með orðum,“ sagði Kristen Denise McCarthy í samtali við Morgunblaðið.