— Morgunblaðið/Kristinn
2. nóvember 1906 Fyrsta kvikmyndahúsið, Reykjavíkur Biograftheater, tók til starfa í Fjalakettinum við Aðalstræti. Meðal annars var sýnd mynd frá móttöku íslenskra þingmanna í Fredensborg sumarið áður og önnur frá jarðarför Kristjáns konungs níunda.

2. nóvember 1906

Fyrsta kvikmyndahúsið, Reykjavíkur Biograftheater, tók til starfa í Fjalakettinum við Aðalstræti. Meðal annars var sýnd mynd frá móttöku íslenskra þingmanna í Fredensborg sumarið áður og önnur frá jarðarför Kristjáns konungs níunda. Kvikmyndahúsið var síðar nefnt Gamla bíó. Húsið var rifið árið 1985.

2. nóvember 1913

Morgunblaðið kom út í fyrsta sinn. Í ávarpi til lesenda sagði Vilhjálmur Finsen ritstjóri: „Dagblað það sem hér byrjar starf sitt á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemmtilegt og lipurt ritað fréttablað.“ Hvert eintak kostaði 3 aura. Í upphafi voru áskrifendurnir 38 en ári síðar á annað þúsund.

2. nóvember 1976

„Punktur, punktur, komma strik,“ fyrsta skáldsaga Péturs Gunnarssonar kom út. Útgefandinn sagði bókina fjalla um „borgarbarnið Andra, líf hans og umhverfi“.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson