Hljómlistarmaður Hannes Hannesson.
Hljómlistarmaður Hannes Hannesson.
Hannes Jón Hannesson hljómlistarmaður á 70 ára afmæli í dag.

Hannes Jón Hannesson hljómlistarmaður á 70 ára afmæli í dag. Hann hefur starfað við hljómlist nær sleitulaust frá 15 ára aldri, með hljómsveitum á dansleikjum, konsertum, hljómplötum og í sjónvarps- og útvarpsþáttum, bæði á Íslandi og í átta öðrum löndum. Auk þess hefur Hannes Jón lagt gjörva hönd á gítar- og músíkkennslu á Íslandi, í Svíþjóð og Bandaríkjum. Einnig hefur hann leiðbeint í ensku og stærðfræði.

„Ég fæddist líklega syngjandi, man ekki eftir mér öðruvísi, og er alltaf með músík í heilahvelinu; fæ líka lög og texta send til mín í hugann, bæði í svefni og vöku. Hlýði mestmegnis þessum hugmyndum sem koma svona til mín, oftast sterklega gerðar, en nokkrum sinnum hef ég verið beðinn um að semja lög við texta og við lestur fyrstu línu ljóðsins hafa lögin birst og heyrst fullmótuð, með tilheyrandi kaflaskiptum; og upptakan hefst strax, núna.“

Hannes lærði á blokkflautu 6-7 ára, svo tók gítarinn völdin frá 14 ára aldri og fór hann fljótlega að spila með hljómsveitum: Molar 15 ára, Tónar 16 ára, síðan Sfynx, MR-skólahljómsveitin Næturgalar, tríóið Fiðrildi, var sóló um skeið, m.a. í Útvarpi Matthildi, og stofnaði svo Brimkló.

Hannes nam örlítið tónheyrn og píanó upp úr tvítugu. Tók Guitar and Music Professional diplóma frá GIT í Hollywood 1990, kláraði BA-próf í músík- og kvikmyndafræðum frá Stockholm Universitet í Svíþjóð 1998 og lauk MA-gráðu í Music/Composing & Arranging frá California State University í Los Angeles 2003. „Mér hefur fundist gaman að spila, syngja og kenna músík, sérstaklega með gítarinn í höndunum, og einkum og sér í lagi að leiðbeina þeim sem eru strandaðir og þurfa áttavita fyrir sínar næstu nótur, hljóma og aðferðir í músíkiðkun sinni. Það er mjög gefandi að finna gleði, lausnir og árangur í músík, bæði í spili og söng. Þannig líður mér best.“

Börn Hannesar eru fimm: Guðmundur, Ásta Katrín, Heimir Örn, Andrés Frímann og Kristófer Jón, og fósturbörnin eru tvö: Ruth Noemi og Hector Antonio. „Ég hef unnið mörg mismunandi störf um ævina og sinnt afkomendunum af kostgæfni í gegnum tíðina; það hefur tekið sinn tíma. Nú tek ég upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og framkvæmi aðaláhugamálin: músíkiðkun og manneskju-gæsku, til áframhaldandi hás aldurs, það sem eftir er af tilvist minni hér á jörð.“

Hannes Jón býður ættingjum og vinum, að matast & gleðjast með sér á afmælisdaginn. Hljóðfæri og raddbönd eru velkomin.